Erlent

Áhyggjufullir yfir ætlunum ESB

Samúel Karl Ólason skrifar
Gífurlegur fjöldi flóttamanna hefur reynt að fara yfir Miðjarðarhafið frá Líbýu.
Gífurlegur fjöldi flóttamanna hefur reynt að fara yfir Miðjarðarhafið frá Líbýu. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Líbýu gagnrýna Evrópusambandið fyrir að ætla að heimila valdbeitingu gegn smyglurum innan landamæra Líbýu. Sendiherra landsins gagnvart Sameinuðu þjóðunum segir áætlanir ESB vera óljósar og þær valdi stjórnvöldum áhyggjum. ESB leitar nú leyfis SÞ um að stöðva eða eyðileggja skip smyglara innan landhelgi Líbýu.

Áætlanirnar eru hluti ESB í að hægja á straumi flóttamanna yfir Miðjarðarhafið.

Samkvæmt Breska ríkisútvarpinu telja Sameinuðu þjóðirnar að um 60 þúsund manns hafi reynt að flýja yfir Miðjarðarhafið á þessu ári. Af þeim er talið að 1.800 manns hafi látið lífið. Flestir flóttamennirnir koma frá hrjáðum löndum eins og Sýrlandi, Erítreu, Nígeríu og Sómalíu.



Meðal þess sem embættismenn í Brussel eru sagðir vinna að er að jafna dreifingu hælisleitenda á milli landa innan Evrópusambandsins. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sækja langflestir um hæli í Þýskalandi.

Talið er að ESB muni kynna sérstakan hælisleitenda kvóta á miðvikudaginn. Slíkt kerfi yrði þó að vera samþykkt af ríkjum ESB en það þykir mjög umdeilt.

Auk þess er unnið að tillögu fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna um að skip á vegum ESB muni mega granda skipum smyglara innan landhelgi Líbýu og jafnvel senda hermenn á land.

„Evrópusambandið hefur ekki haft nokkuð samráð við stjórnvöld Líbýu. Þeir hafa haldið upplýsingum um áætlanir þeirra frá okkur, eins og um hvernig hernaðaraðgerðir þeir muni framkvæma innan okkar landhelgi,“ sagði Ibrahim Dabbashi við BBC.

Hann sagði ástandið valda miklum áhyggjum og vildi fá að vita hvernig ESB myndi til dæmis greina á milli fiskiskipa og skipa smyglara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×