Erlent

Erlendir vígamenn ISIS sagðir berjast með Talíbönum

Samúel Karl Ólason skrifar
Afganskir hermenn undirbúa sig fyrir sókn Talíbana nærri Kunduz.
Afganskir hermenn undirbúa sig fyrir sókn Talíbana nærri Kunduz. Vísir/AFP
Öryggissveitir Afganistan hafa gert gagnárás gegn sókn Talíbana í norðausturhluta landsins, nærri borginni Kunduz. Talíbanar höfðu sótt nærri borginni síðan þeir hófu hina árlegu vorsókn sína í lok síðasta mánaðar.

Vígamennirnir eru nú sagðir vera í úthverfum borgarinnar, en um tíu þúsund manns sem þurft hefur að fljúga heimili sín á nærliggjandi svæðum halda til í Kunduz og komast ekki þaðan. Árásin er talin einhver sú alvarlegasta sem gerð hefur verið í Afganistan um árabil.

Embættismenn segja að erlendir vígamenn ISIS berjist með Talíbönum. Ríkisstjórinn Omer Safi sagði BBC að 18 lík erlendra vígamanna hefðu fundist og þar af lík tveggja kvenna. Blaðamaður BBC sem er í borginni segir að þetta sé í fyrsta sinn embættismenn staðfesta að Íslamska ríkið berjist með Talíbönum í Afganistan.

Bera svört ennisbönd

Komið hefur til bardaga á milli ISIS og Talíbana í Suður-Afganistan, þar sem ISIS hefur safnað saman liði í nokkra mánuði. Erlendu vígamennirnir sem um ræðir eru sagðir vera frá Tajikistan, Úsbekistan, Kirgistan, Tyrklandi og Tsjetsjeníu. Þá bera þeir svört ennisbönd eins og vígamenn ISIS í Írak og Sýrlandi.

Her Afganistan berst gegn vígamönnunum með lögregluþjónum, en þeir hafa fengið litla hjálp frá NATÓ. Safa Ríkisstjóri segir öryggissveitirnar skorta flugvélar og þyrlur til að gera loftárásir gegn sókn Talíbana. Hermenn NATÓ eru nú tiltölulega fáir í Afganistan og samkvæmt BBC hefur NATÓ neitað nokkrum beiðnum um loftárásir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×