Erlent

Viðskiptaþvingunum gegn Íran aflétt í áföngum

Atli Ísleifsson skrifar
Barack Obama var í útvarpsviðtali við NPR fyrr í dag.
Barack Obama var í útvarpsviðtali við NPR fyrr í dag. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að viðskiptaþvingunum þeim sem beint er gegn Írönum verði aflétt í áföngum.

Samkomulag náðist í síðustu viku milli Vesturveldanna og íranskra stjórnvalda um kjarnorkuáætlun Írans.

Forsetinn hafnaði í útvarpsviðtali fyrr í dag kröfum ísraelskra stjórnvalda um að samningurinn við Írani verði háður því að Íran viðurkennir Ísraelsríki.

„Hugmyndin um að við myndum skilyrða það að Íranir þrói ekki kjarnorkuvopn þannig að Íran viðurkenni Ísrael væri líkt og að segja að við munum ekki skrifa undir samning nema ef Íransstjórn umbreytist algerlega,“ sagði Obama í viðtali við NPR.

Í frétt Reuters kemur fram að Bandaríkjastjórn vinni nú að því að sannfæra bandaríska þingmenn um að staðfesta þann rammasamning sem samkomulag náðist um á fimmtudaginn síðasta milli Írans og sex stórvelda – Bandaríkin, Bretland, Kína, Rússland, Frakkland og Þýskaland.

Stefnt er að því að endanlegur samningur liggi fyrir í júní.


Tengdar fréttir

Obama kallar eftir stuðningi alþjóðasamfélagsins

Barack Obama gefur lítið fyrir gagnrýni repúblikana og segir nýjan rammasamning góðan. Líta eigi á hann sem sögulegt tækifæri til þess að stöðva hugsanlega útbreiðslu kjarnorkuvopna í Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×