Erlent

ISIS-liðar sleppa um 200 Jasídum

Atli Ísleifsson skrifar
Fólkið sem var sleppt var allt eldra fólk og veikburða.
Fólkið sem var sleppt var allt eldra fólk og veikburða. Vísir/AFP
Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna ISIS hafa sleppt um tvö hundruð Jasídum sem hefur verið haldið föngnum í fleiri mánuði. Fólkinu var rænt þegar ISIS-liðar réðust á þorp Jasída í norðvesturhluta Íraks.

Í frétt Reuters segir að fólkið sem var sleppt hafi verið eldra fólk og veikburða. Fréttamaður Reuters segir að fólkið hafi verið afhent öryggissveitum Kúrda nærri bænum Kirkuk. Fjöldi gíslanna hafi bæði verið of úrvinda og svo illa haldnir að þeir hafi ekki getað tjáð sig við hermennina.

Eldri kona segist hafa verið rænt í lok ágústmánaðar þegar ISIS-liðar hröktu öryggissveitir Kúrda á brott í Sinjar-héraði. ISIS-liðar drápu þá fleiri hundruð Jasída, auk þess að fleiri þúsund voru tekin til fanga.

Konan, sem sagðist ekki vilja koma fram undir nafni, segist hafa sagt syni sínum og tveimur dætrum að flýja þegar þau hafi séð ISIS-liðana nálgast þorpið í ágúst. Sjálf sagðist hún ætla að verða eftir þar sem hún hafi ekki viljað halda aftur af börnum sínum á flótta.

„Ég hafði gefið upp alla von að sjá börnin mín aftur, en það gerðist í dag.“

ISIS-liðar beindu sjónum sínum meðal annars að Jasídum síðastliðið sumar þar sem þeir álíta þá vera djöfladýrkendur.

Sumir Jasídanna segja að þeim hafi veirð haldið í Tel Afar, einu helsta vígi hryðjuverkasamtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×