Erlent

Jolie lét fjarlægja eggjastokka og eggjaleiðara

Samúel Karl Ólason skrifar
Angelina Jolie.
Angelina Jolie. Vísir/EPA/GETTY
Leikkonan Angelina Jolie hefur látið fjarlægja eggjastokka sína og eggjaleiðara. Fyrir tveimur árum lét hún fjarlæga bæði brjóst sín. Rannsókn leiddi í ljós að hún var í áhættuflokki fyrir krabbameini í brjóstum og eggjastokkum og hún missti móður sína, ömmu og frænku úr krabbameini.

Þetta kemur fram í grein sem hún skrifaði í New York Times í dag.

Jolie segir frá því að hún hafi lengi ætlað sér að láta fjarlægja eggjastokkana, en þrátt fyrir að sú aðgerð sé í raun einfaldari en að láta fjarlægja brjóst, séu afleiðingar hennar afdrifaríkari. Þrátt fyrir að vera einungis 39 ára gömul, er hún nú komin á breytingaskeiðið eftir aðgerðina.

Fyrir tveimur vikum fékk hún símtal frá lækni sínum, sem sagði henni að ný rannsókn hefði leitt í ljós að hugsanlega væri hún komið með krabbamein á byrjunarstigum.

„Ég fór í gegnum það sem ég ímynda mér að þúsundir kvenna hafi gert. Ég skipaði mér að halda ró, að vera sterk og sagði mér að ég hefði enga ástæðu til að ætla að ég myndi ekki sjá börnin mín vaxa úr grasi og kynnast barnabörnum mínum.“

Hún fór til sama læknis og annaðist móðir hennar og í ljós kom að hún var ekki með krabbamein. Þrátt fyrir það ákvað Jolie að láta gangast undir aðgerð og lét fjarlægja eggjastokka sína og eggjaleiðara.

„Það er ómögulegt að fjarlægja alla áhættu og staðreyndin er sú að ég er líkleg til að fá krabbamein. Ég mun leita allra leiða til að styrkja ónæmiskerfi mitt. Mér líður enn eins og konu og er staðföst með þær ákvarðanir sem ég tek fyrir mig og fjölskyldu mína. Ég veit að börnin mín munu aldrei segja: Mamma dó úr krabbameini í eggjastokkum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×