Erlent

Leit að MH370 mögulega hætt innan nokkurra vikna

Atli Ísleifsson skrifar
239 farþegar og áhafnarmeðlimir voru um borð í vélinni sem hvarf af ratsjám 8. mars á síðasta ári.
239 farþegar og áhafnarmeðlimir voru um borð í vélinni sem hvarf af ratsjám 8. mars á síðasta ári. Vísir/AFP
Leit að MH370, vél malasíska flugfélagsins Malaysian Airlines sem hvarf af ratsjám þann 8. mars á síðasta ári verður mögulega hætt innan fáeinna vikna. Aðstoðarforsætisráðherra Ástralíu segir leitina ekki geta haldið áfram endalaust.

Aðstoðarforsætisráðherrann Warren Truss segir að viðræður séu þegar hafnar milli fulltrúa stjórnvalda í Ástralíu, Kína og Malasíu um framhald leitarinnar.

Ekkert hefur spurst til vélarinnar sem var á leið frá malasísku höfuðborginni Kuala Lumpur, áleiðis til kínversku höfuðborgarinnar Beijing. Talið er að vélin hafi flogið mörg þúsund kílómetra af leið áður en hún hrapaði einhvers staðar í Indlandshafi, en 239 farþegar og áhafnarmeðlimir voru um borð.

Búist er við að leit á um 60 þúsund ferkílómetra hafsvæði, um 1.600 kílómetrum vestur af áströlsku borginni Perth, verði lokið í maí, en sérfræðingar telja líklegast að vélin hafi hrapað á umræddu svæði.

Truss segir nauðsynlegt að komast brátt að niðurstöðu um hvort stækka beri leitarsvæðið enn frekar eða hætta leit, finnist ekki leifar úr vélinni á allra næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×