Enski boltinn

Andy Carroll spilar ekki fleiri leiki á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andy Carroll.
Andy Carroll. Vísir/Getty
Enski framherjinn Andy Carroll er á leiðinni í aðgerð á hné og mun ekki spila meira með West Ham á tímabilinu en félagið staðfesti þetta við enska fjölmiðla í dag.

Andy Carroll, sem hefur verið afar óheppinn með meiðsli á tíma sínum á Upton Park, meiddist á vinstra hné í markalausa jafnteflinu á móti Southampton á miðvikudagskvöldið.

Andy Carroll þurfti að klára leikinn þar sem að West Ham var búið með allar skiptingarnar sínar í leiknum.

Sérfræðingur skoðaði hné Andy Carroll í dag og niðurstaðan var að senda hann á skurðarborðið sem þýðir að tímabilið er búið hjá honum.

Andy Carroll, sem er 26 ára gamall, hefur skorað fimm mörk í fjórtán leikjum með West Ham í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hann missti af tíu fyrstu leikjunum vegna meiðsla á ökkla.

Carroll hefur meiðst fimm sinnum alvarlega síðan að hann kom til West Ham frá Liverpool. Hann meiddist fyrst aftan í læri í september 2012 (frá í einn mánuð), þá á hné í nóvember 2012 (frá í tvo mánuði), hann meiddist á hæl í maí 2013 (frá í sjö mánuði) og sleit síðan liðbönd í ökkla í júlí 2014 (frá í fjóra mánuði).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×