Enski boltinn

Tim Sherwood nýr stjóri Aston Villa: Þurfum að fara að slá frá okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Sherwood, nýr knattspyrnustjóri Aston Villa.
Tim Sherwood, nýr knattspyrnustjóri Aston Villa. Vísir/Getty
Tim Sherwood, nýr knattspyrnustjóri Aston Villa, ætlar að bjóða upp á meiri áherslu á sóknarleik í leikjum liðsins en var undir stjórn Paul Lambert sem var rekinn í síðustu viku.

Aston Villa datt niður í fallsæti eftir tap á móti Hull í síðasta deildarleik en sló Leicester út út enska bikarnum um helgina þar sem að Tim Sherwood fylgdist með úr stúkunni.

„Ég hef aðeins fylgst með liðinu úr fjarlægð en þeir hafa litið út fyrir að vera svolítið hikandi í leik sínum. Ég tel að liðið þurfi að sækja meira," sagði Tim Sherwood á sínum fyrsta blaðamannafundi sem knattspyrnustjóri Aston Villa.

„Við eigum eftir að vinna og tapa leikjum það sem eftir lifir tímabilsins. Við verðum samt að berjast fyrir okkar og fara að slá meira frá okkur," sagði Sherwood.

„Þegar ég kom hingað sem leikmaður þá var alltaf erfitt að ná í góð úrslit. Ég vil byggja aftur upp virkið sem áður var. Það er afar, afar mikilvægt að félagið haldi sér í ensku úrvalsdeildinni," sagði Sherwood.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir mig því þetta er risastórt fótboltafélag. Ég þurfti ekki að hugsa mig um þegar ég fékk símtalið," sagði  Sherwood.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×