Enski boltinn

Atletico Madrid vill fá Santi Cazorla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Santi Cazorla væri eflaust sáttur með að komast aftur í heitara loftslag.
Santi Cazorla væri eflaust sáttur með að komast aftur í heitara loftslag. Vísir/Getty
Santi Cazorla gæti verið á leiðinni frá Arsenal í sumar og ef marka má fréttir í enskum og spænskum fjölmiðlum þá er líklegt að hann endi í herbúðum spænsku meistaranna í Atletico Madrid.

Guillem Balague, sérfræðingur um spænska fótboltann á Sky Sports, hefur heimildir fyrir því að Atletico Madrid sé byrjað að tala við ráðgjafa Santi Cazorla um möguleikann á því að hann komi aftur heim til Spánar í sumar.

Santi Cazorla á eftir 18 mánuði af samningi sínum við Arsenal en hann hefur spilað mjög vel fyrir enska úrvalsdeildarliðið að undanförnu.

„Forráðamenn Atletico eru sannfærðir um að þeir geti sannfært leikmanninn um að koma. Þeir verða bara að borga fyrir hann. Hann á bara eitt ár eftir af samningi sínum og því gæti hann verið ódýrari fyrir vikið," sagði Guillem Balague í viðtali á heimasíðu Sky Sports.

Diego Simeone, þjálfari Atletico Madrid, er sagður vera að leita sér að miðjumanni og það gæti skapað rétta tækifærið fyrir Santi Cazorla að snúa aftur í spænska boltann.

Santi Cazorla varð þrítugur í lok síðasta árs en hann spilaði með Villarreal (2007-11) og Málaga (2011-12) áður en hann kom til London. Þetta er þriðja tímabilið hans með Arsenal. Cazorla hefur spikað 69 landsleiki fyrir Spán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×