Enski boltinn

Rooney bað markvörð Preston afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Marouane Fellaini fagna marki Rooney úr vítaspyrnunni.
Wayne Rooney og Marouane Fellaini fagna marki Rooney úr vítaspyrnunni. Vísir/EPA
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United og enska landsliðsins í fótbolta, bað markvörð Preston afsökunar eftir að hann fiskaði á hann vítaspyrnu í bikarleik Manchester United og Preston á mánudagskvöldið.

Rooney tók vítaspyrnuna sjálfur, kom Manchester United í 3-1 og gerði endanlega út um leikinn en Preston sem spilar í ensku C-deildinni var lengi 1-0 yfir í leiknum.

Dómari leiksins dæmdi vítaspyrnuna á Thorsten Stuckmann, markvörð Preston, en á sjónvarpsmyndunum var erfitt að sjá einhverja snertingu.

„Eftir leikinn sagði Rooney mér: Fyrirgefðu, þetta var tækifæri fyrir mig að fá víti. Ég varð að nýta mér það," sagði Thorsten Stuckmann í viðtali við The Sun.

„Þetta er alveg ljóst. Þetta var ekki víti. Ég er líka alveg handviss um að ef að þetta hefði gerst hinum megin á vellinum þá hefði Preston aldrei fengið víti. Um það er enginn vafi í mínum huga," sagði Thorsten Stuckmann.

Enskir fjölmiðlar fjölluðu allir um „dýfu" Wayne Rooney í gær en bæði Simon Grayson, knattspyrnustjóri Preston og landsliðsþjálfarinn Roy Hodgson vörðu báðir málstað Rooney sem þeir töldu ekki hafa tekið "dýfu" heldur hafi dottið við það að forðast fætur markvarðarins.

Hér fyrir neðan má síðan sjá vítaspyrnuna sem Wayne Rooney fiskaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×