Innlent

Akureyringar vilja hafa sitt um flugvöllinn að segja

Jakob Bjarnar skrifar
Akureyringar telja það ekkert einkamál Reykvíkinga, hvar þeir vilja hafa flugvöllinn.
Akureyringar telja það ekkert einkamál Reykvíkinga, hvar þeir vilja hafa flugvöllinn. visir/pjetur
Samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn Akureyrar í gær að skora á borgarfulltrúa Reykjavíkur að gefa hinni svokölluðu Rögnunefnd svigrúm til að ljúka sinni vinnu vegna framtíðarskipulags við Reykjavíkurflugvöll og að ekki verði afgreitt að svo komnu máli framkvæmdaleyfi á Hlíðarendasvæðinu í námunda við flugvöllinn.

Svo segir í ályktun sem bæjarstjórnin fyrir norðan sendi frá sér nú rétt í þessu. Þar segir jafnframt að þrátt fyrir að eindreginn vilji Akureyringa í þessu máli hafi lengi legið fyrir, hafi verið samþykkt seint í gærkvöldi í borgarstjórn Reykjavíkur að hefja undirbúningsframkvæmdir á Hlíðarendasvæði við Reykjavíkurflugvöll.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri.
Samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar sem bókuð var með 11 samhljóða atkvæðum hljóðar svo:

„Bæjarstjórn Akureyrar minnir enn og aftur á mikilvægi innanlandsflugs og að aðgengi landsbyggðanna að höfuðborginni er lykilatriði fyrir farsæla byggðaþróun. Mikilvægt er að sem víðtækust samstaða allra landsmanna náist um framtíðarfyrirkomulag flugvallar á höfuðborgarsvæðinu. Bæjarstjórn Akureyrar krefst þess að nefnd sem kennd er við Rögnu Árnadóttur, Rögnunefndin, fái svigrúm og þann tíma sem hún þarf til þess að leggja fram sínar tillögur og skorar á borgarfulltrúa Reykjavíkur að beita sér fyrir því að ekki verði afgreidd framkvæmdaleyfi á Hlíðarendasvæðinu fyrr en Rögnunefndin hefur lokið vinnu sinni.“

Uppfært 14:30:

Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins hafa þegar lýst yfir mikilli ánægju með þessar ábendingar Akureyringanna. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir segir að auðvitað vilji fólk hafa um hlutverk höfuðborgarinnar að segja og Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir segist ánægð með Akureyringana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×