Enski boltinn

Paul og Paul skutu Preston áfram - Sunderland mætir Bradford

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Gallagher skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu.
Paul Gallagher skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu. vísir/getty.
Preston North End hafði betur gegn Sheffield United, 3-1, í endurteknum bikarleik liðanna í kvöld.

Það mætir Manchester United á heimavelli í 16 liða úrslitum, en þegar þetta er skrifað er United komið í 3-0 gegn D-deildarliði Cambridge.

Preston lenti undir í leiknum þegar Jamie Muprhy skoraði fyrir lærisveina Nigels Cloughs, en á tíu mínútna kafla í síðari hálfleik gekk Preston frá leiknum.

Þar voru nafnarnir Paul Gallagher og Paul Huntington að verki, en sá fyrrnefdi jafnaði metin, 1-1, á 63. mínútu áður en sá síðarnefndi kom Preston í 2-1 fimm mínútum síðar.

Gallagher innsiglaði svo tvennu sína og 3-1 sigur gestanna með marki úr vítaspyrnu á 73. mínútu. Sheffield úr leik í tveimur bikarkeppnum á einni viku.

Sunderland komst einnig áfram í kvöld og mætir Bradford í 16 liða úrslitunum, en Gus Poyet og hans menn lögðu Fulham á útivelli, 3-1.

Hugo Rodallega kom B-deildarliði Fulham yfir á 28. mínútu, en Marcus Bettinelli varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og jafna metin, 1-1. Ricardo Alvárez og Jordí Goméz bættu svo við mörkum fyrir úrvalsdeildarliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×