Enski boltinn

Algjörlega ómögulegt að fylla skarð snillingsins Ferguson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson. Vísir/Getty
Umboðsmaðurinn Jorges Mendes er áhrifamikill innan knattspyrnuheimsins og BBC talar um ofurumboðsmanninn í viðtali við hann í dag þar sem hann ræðir meðal annars Sir Alex Ferguson, fyrrum knattspyrnustjóra Manchester United.

Sir Alex Ferguson hætti með United-liðið í maí 2013 eftir að hafa unnið 38 titla á 27 árum. David Moyes tók við en entist bara í tíu mánuði. Hollendingurinn Louis van Gaal á nú átta mánuði að baki sem stjóri Manchester United.

„Það er bara eitt vandamál. Það er algjörlega ómögulegt að finna mann eins og  Sir Alex Ferguson. Hann er guð, hann er snillingur og það er ekki auðvelt að finna snillinga," sagði Jorges Mendes við BBC.

„Með því að hafa mann eins og Sir Alex Ferguson væri liðið með tólf til fimmtán stigum meira en það er í dag. Hann er hættur en það er hann sem gerði útslagið hjá liðinu í gegnum tíðina," sagði Mendes.

Manchester United er nú í 3. sæti í ensku úrvalsdeildinni tíu stigum á eftir toppliði Chelsea og fimm stigum á eftir Manchester City sem er í 2. sæti.

Jorges Mendes er umboðsmaður manna eins og Cristiano Ronaldo, Diego Costa og Angel Di Maria. Hann er líka umboðsmaður Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×