Enski boltinn

Erfiðasta verkefnið verður að styðja Liverpool á laugardaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndin tengist fréttinni ekkert.
Myndin tengist fréttinni ekkert. Vísir/Getty
Raymond Moore hefur haldið með Everton alla sína tíð sem þýðir jafnframt að hann hefur hatað nágrannana í Liverpool. Hann hefur nú skipt um lið í einn mánuð og allt fyrir gott málefni.

Liverpool Echo segir frá þrekraun Moore um komandi helgi þegar Liverpool-liðin mætast í derby-leik á Goodison Park, heimavelli Everton.

Raymond Moore er 51 árs gamall og hann er að safna pening fyrir ungmenna og félagasamtök sem hann rekur í Southport.

Það að styðja Liverpool í einn mánuð og þar með í derby-leiknum er aðeins eitt af mörkum verkefnum hans en það erfiðasta að mati Moore.

Auk þessa þarf Raymond Moore meðal annars að hlaupa 10 kílómetra í mars, hjóla frá Liverpool til Chester, ganga á þrjú fjöll og komast í gegnum þrautarhlaup kennt við Tough Mudder.

Það var að sjálfsögðu Liverpool-stuðningsmaður sem átti hugmyndina að því að Raymond Moore héldi með Liverpool í umræddum leik en þeir hittust í fríi í Tælandi í fyrra.

Það fylgir þó sögunni að Raymond Moore ætlar ekki að mæta á leikinn í Liverpool-treyjunni en lofar að fagna hverju marki Liverpool í leiknum. Afsökunin fyrir því að vera ekki í Liverpool-stúkunni var að hann vildi ekki taka sæti frá alvöru stuðningsmanni Liverpool.

Það breytir ekki því að Raymond Moore hefur fengið að heyra það frá öðrum stuðningsmönnum Everton sem eru allt annað en sáttir með sinn mann. Það er hægt að lesa umfjöllun Liverpool Echo hér.

Leikur Everton og Liverpool fer fram á laugardaginn klukkan 17.30 og verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×