Enski boltinn

Jafntefli í fjörugum fallbaráttuslag

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Burnley nær ekki að verjast horni
Burnley nær ekki að verjast horni Vísir/Getty
Burnley og WBA skildu jöfn 2-2 í bráðfjörugum leik á Turf Moor í Burnley 2-2 í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Burnley hóf leikinn af miklum krafti og komst verðuskuldað yfir strax á 11. mínútu þegar Ashley Barnes skallaði fyrirgjöf Danny Ings í netið.

Ings skoraði sjálfur skallamark á 32. mínútu eftir frábæra fyrirgjöf George Boyd en annan heimaleikinn í röð glutraði Burnley niður tveggja marka forystu því 17. janúar tapaði liðið 3-2 fyrir Crystal Palace eftir að hafa komist 2-0 yfir.

Chris Brunt minnkaði muninn á síðasta andartaki fyrri hálfleik þegar hann skallaði hornspyrnu Callum McManaman í netið og staðan í hálfleik 2-1.

Burnley hafði mikla yfirburði í fyrri hálfleik og verðskuldaði stærra forskot en liðið á í miklum vandræðum með að verjast föstum leikatriðum og jafnaði WBA metin úr annarri hornspyrnu þegar varamaðurinn Brown Ideye skoraði eftir sendingu Brunt á 67. mínútu.

Stigið lyftir Burnley úr fallsæti en liðið er nú með 21 stig í 24 leikjum í 17. sæti. WBA er í 15. sæti með 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×