Enski boltinn

De Gea ekki búinn að skrifa undir hjá United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Man. United má varla við því að missa David De Gea.
Man. United má varla við því að missa David De Gea. vísir/getty
Manchester United á þessa dagana í samningaviðræðum við Jorge Mendes, umboðsmann markvarðarins Davids De Gea, um áframhaldandi samning hjá félaginu. Mendes er áhrifamesti umboðsmaður heims og sér t.a.m. um allt sem tengist Cristiano Ronaldo.

Sjá einnig:Manchester United náði stigi á Boleyn Ground | Sjáið mörkin

De Gea hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid undanfarnar vikur. Þar virðist vera að líða að markvarðaskiptum og þá er United búið að fá til sín Víctor Valdés.

Svo virðist sem United sé við öllu reiðubúið ákveði De Gea að fara heim til Spánar. Mendes segir þó að ekki sé búið að semja um neitt við Real Madrid eins og sumir miðlar hafa haldið fram.

„Það er ekki satt að samningar séu í höfn. Ég er í viðræðum um nýjan samning hjá United en það hefur ekki verið skrifað undir neitt ennþá. Við sjáum bara til hvað gerist. Það lítur út fyrir að hann verði áfram hjá United en ég ítreka: Það hefur ekki verið skrifað undir neitt,“ segir Mendes í viðtali við AS.

David De Gea hefur spilað frábærlega fyrir Manchester United á tímabilinu og að flestra mati verið besti maður liðsins. Hann kom til United frá Atlético Madríd fyrir fjórum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×