Enski boltinn

Cardiff tapaði en Leeds vann langþráðan sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lee Tomlin skorar hér seinna mark Middlesbrough án þess að Aron Einar Gunnarsson komi vörnum við.
Lee Tomlin skorar hér seinna mark Middlesbrough án þess að Aron Einar Gunnarsson komi vörnum við. Vísir/Getty
Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff City töpuðu í kvöld 1-2 á útivelli gegn Middlesbrough í ensku b-deildinni. Leeds vann á sama tíma heimasigur á móti toppliði Bournemouth.

Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn á miðju Cardiff en heimamenn í Middlesbrough komust yfir í 2-0 eftir tvö mörk sem sextán mínútna millibili um miðjan seinni hálfleik.

Patrick Bamford og Lee Tomlin skoruðu mörk Middlesbrough en Kenwyne Jones minnkaði muninn fyrir Cardiff með skallamarki á 86. mínútu eftir fyrirgjöf Joe Ralls. Þetta var annað tap Cardiff-liðsins í röð.

Luke Murphy tryggði Leeds 1-0 sigur á Bournemouth með langskoti á 36. mínútu leiksins. Yann Kermorgant gat jafnað metin á 87. mínútu en skaut þá úr slá úr vítaspyrnu. Giuseppe Bellusci fékk rautt spjald fyrir brotið og endaði því Leeds-liðið tíu á móti ellefu.

Þetta var fyrsti sigur Leeds í deildinni síðan 29. nóvember en liðið var fyrir leikinn búið að spila sex leiki í röð án þess að fagna sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×