Enski boltinn

Brendan Rodgers: Raheem Sterling hafði gott af fríinu á Jamaíka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling fagnar marki sínu í fær.
Raheem Sterling fagnar marki sínu í fær. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að lið sitt geti komist í úrslitaleikinn í enska deildabikarnum þrátt fyrir 1-1 jafntefli á heimavelli í gær á móti Chelsea í fyrri undanúrslitaleik liðanna.

Eden Hazard kom Chelsea yfir úr vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum en Raheem Sterling jafnaði metin í seinni hálfleik eftir einstaklingsframtak.

„Frammistaðan í þessum leik var góð vísbending um hvar við erum staddir þessar stundina. Þessi leikur gaf mér líka trú á því að við getum farið á Stamford Bridge til að ná þeim úrslitum sem við þurfum á að halda," sagði Brendan Rodgers við BBC eftir leikinn.

Liverpool-liðið hefur ekki tapað í níu síðustu leikjum sínum í öllum keppnum eða allt frá því að liðið tapaði 3-0 fyrir Manchester United í desember.

„Við ættum að geta búist við því að Chelsea-liðið opni sig aðeins meira í seinni leiknum. Það mun hjálpa okkur vegna hraðans og hugvitsseminnar sem við höfum í okkar liði," sagði Rodgers.

„Þeir eru með góðan árangur á heimavelli en við höfum á sama tíma ekki fengið á okkur mark í síðustu þremur útileikjum okkar," sagði Rodgers og hann sagði að það hafi gert Raheem Sterling gott að komast í vikulangt frí til Jamaíka.

„Hann hafði mjög gott af hvíldinni. Hann hreyfði sig frábærlega í leiknum og sýndi það hann er bæði góður í að hlaupa á bak við varnarmennina sem og að keyra á þá í teignum," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×