Enski boltinn

Berahino er ekki til sölu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Pulis og Saido Berahino.
Tony Pulis og Saido Berahino. Vísir/Getty
Saido Berahino, framherji West Brom og enska 21 árs landsliðsins, hefur slegið í gegn á tímabilinu og í framhaldinu hefur hann verið orðaður við lið eins og Liverpool og Tottenham.

Jeremy Peace, stjórnarformaður West Brom, segir í viðtali við BBC, að ekki komi til greina hjá félaginu að selja þennan 21 árs gamla framherja.

„Ég sagði það í haust að félagið hafi engan áhuga á því að selja Saido og það hefur ekkert breyst," sagði Jeremy Peace við BBC.

„Á meðan Tony Pulis ákveður ekki annað þá er Berahino of mikilvægur fyrir okkur til að láta hann fara," sagði Peace.

Saido Berahino hefur skorað 9 mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en sjö þeirra komu í fyrstu níu leikjunum.

Berahino var tekinn fyrir ölvunarakstur í vetur og þurfti að greiða 3400 punda sekt auk þess að missa bílprófið í heilt ár.

„Ég vil nota þetta tækifæri til að varpa ljósi á stöðuna og stefnu félagins fyrir okkar stuðningsmenn. Núna getur Saido lokað þessum kafla í sínu lífi og haldið áfram," sagði Peace.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×