Enski boltinn

Walcott: Framlína Arsenal í dag er betri en sú með Henry 2006

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Theo Walcott.
Theo Walcott. Vísir/Getty
Theo Walcott, enski landsliðsmaðurinn hjá Arsenal, er ánægður með framlínu liðsins í dag og hann segir hana vera betri en þá sem var hjá félaginu þegar hann kom til liðsins árið 2006.

Í framlínu Arsenal í dag eru þeir Alexis Sanchez, Olivier Giroud, Danny Welbeck og Alex Oxlade-Chamberlain en fyrir níu árum voru þar Robert Pires, Freddie Ljungberg, Dennis Bergkamp, Thierry Henry og Jose Antonio Reyes.

„Ég tel að framlínuhópurinn í ár sé betri en við þurfum að sanna það," sagði Theo Walcott við heimasíðu Arsenal.

„Þegar ég kom til félagsins þá voru hér Pires, Ljungberg, Bergkamp, Thierry og Jose Antonio Reyes og það er enginn smá hópur líka," sagði Walcott.

„Um leið og við náum að geta eitthvað meira en að vinna bara enska bikarinn þá ættum við að geta staðið upp og lýst því yfir að þetta sé besta framlínan sem Arsenal hefur átt," sagði Walcott.

Walcott talaði um mikla vinnusemi Danny Welbeck og var sammála Alex Oxlade-Chamberlain sem líkti Alexis Sanchez við Duracell-kanínuna.

„Ég er síðan auðvitað að koma til baka og þá má ekki gleyma því að við erum með menn eins og Aaron (Ramsay) og Jack (Wilshere) á miðjunni. Það styrkir sóknarleik liðsins enn frekar," sagði  Walcott.

„Nú verður þetta mikill hausverkur fyrir stjórann að velja hvaða leikmenn eiga byrja framarlega á vellinum," sagði Walcott.

Theo Walcott hefur misst af nær öllu tímabilinu vegna meiðsla en hefur komið inná sem varamaður í tveimur af þremur síðustu leikjum Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×