Enski boltinn

Mourinho: Ég fæ Gerrard bara á láni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho klappaði fyrir Steven Gerrard í gær.
Jose Mourinho klappaði fyrir Steven Gerrard í gær. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, var enn á ný spurður út í Steven Gerrard eftir 1-1 jafntefli Chelsea og Liverpool í gær í fyrri undanúrslitaleik liðanna í enska deildabikarnum.

Jose Mourinho horfði upp á Frank Lampard yfirgefa Chelsea síðasta sumar en Chelsea-goðsögnina ákvað þá að fara til New York og spila í bandarísku deildinni. Lampard koma hinsvegar til baka í ensku deildina á láni og spilar nú með höfuðandstæðingum Chelsea-liðsins í vetur, Manchester City.

Steven Gerrard er á sínu síðasta tímabili með Liverpool en hann er á leiðinni til LA Galaxy í sumar. Mourinho stóðst ekki freistinguna og stríddi aðeins Liverpool-mönnum.

„Ég tel að hann hafi meiri en nægilega hæfileika til að spila áfram í ensku úrvalsdeildinni. Þó að hann sé ekki í mínu liði þá finnst mér leiðinlegt að hann sé að fara," sagði Jose Mourinho við BBC.

Mourinho var spurður hvort að hann ætlaði að reyna að fá Gerrard til þess að spila áfram í ensku úrvalsdeildinni og þá með Chelsea sem reyndi svo mikið að fá hann fyrir tæpum tíu árum.

„Ég fæ hann jafnvel bara á láni á næsta tímabili," svaraði Mourinho en hann klappaði fyrir Steven Gerrard þegar fyrirliði Liverpool var tekinn af velli í gær.

Jose Mourinho og Steven Gerrard í gær.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×