Íslenski boltinn

Systurnar sameinaðar á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiða Dröfn Antonsdóttir.
Heiða Dröfn Antonsdóttir. Mynd/Youtube
Dætur Ragnheiðar Víkingsdóttur, eins sigursælasta leikmanns kvennaliðs Vals frá upphafi, munu aftur spila hlið við hlið á næsta tímabili, því báðar hafa þær skrifað undir samning við Pepsi-deildar lið Vals.   

Valsmenn segja frá því á heimasíðu sinni að Heiða Dröfn Antonsdóttir sé komin aftur heim í Val eftir dvöl hjá Fylki, í Svíþjóð og nú síðast hjá FH þar sem hún var fyrirliði á liðinni leiktíð. Áður hafði yngri systir hennar, Hildur Antonsdóttir, framlengt samning sinn við Val.

Heiða Dröfn Antonsdóttir er 23 ára gömul og á að baki 11 leiki með Val í efstu deild, þann síðasta sumarið 2010. Hún er alls komin með 72 leiki í úrvalsdeild kvenna.

Hildur Antonsdóttir er þremur árum yngri og spilar vanalega aðeins aftar á vellinum en stóra systir en báðar eru þær miðjumenn.  Hildur hefur spilað 61 leik í efstu deild og alla fyrir Val.

Ragnheiður Víkingsdóttir átti þátt í ellefu fyrstu stóru titlum Valskvenna á árunum 1978 til 1995 en þann síðasta vann hún sem þjálfari liðsins. Valur hefur síðan bætt við tólf stórum titlum.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Heiðu Dröfn Antonsdóttur sem var sett inn á Youtube-síðu Knattspyrnufélagsins Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×