Enski boltinn

Messan: Gylfi rétti maðurinn fyrir meistara Man. City? | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur spilað frábærlega fyrir Swansea á tímabilinu.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur spilað frábærlega fyrir Swansea á tímabilinu. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson fékk ekki níundu stoðsendinguna skráða á sig í ensku úrvalsdeildinni um helgina því mark West Ham í 1-1 jafntefli liðanna var skráð sem sjálfsmark.

Gylfi spilaði vel í leiknum og gerði sig líklegan til að skora eða leggja upp annað mark, en um leið og Swansea jafnaði metin var hann tekinn út af. Það fannst Guðmundi Benediktssyni skrítið og Ríkharður Daðason tók undir:

Sjá einnig:Gylfi átti stóran þátt í jöfnunarmarki Swansea | Sjáið mörkin

„Ég er algjörlega sammála þessu. Undir lok leiks var maður að flakka í gegnum leikina, og ensku þulirnir sem lýstu þesum leik voru að furða sig á þessu líka,“ sagði Ríkharður.

„Eina ástæðan er að hann er pínu tæpur og Monk sé hræddur um að fara að missa hann í tognunarmeiðsli. Fyrir mér er engin önnur skýring. Annars væri ég brjálaður ef ég væri Gylfi.“

Framtíð Gylfa Þórs var svo rædd, sérstaklega í ljósi þess að Wilfried Bony, Fílabeinsstrendingurinn sem er vanalega mættur til að setja sendingar Gylfa í netið, er á leið til Manchester City.

Sjá einnig:Gylfi hefur ekki sent stoðsendingu á annan en Bony síðan í október

„Ég vona það fyrir hönd Gylfa að hann fái toppklúbb, jafnvel í sumar. Mér finnst hann vera orðinn það góður,“ sagði Hjörvar Hafliðason og velti upp þeim möguleika að Meistarar City gætu líka tekið hann yfir í sumar.

„Manchester City er með Fernando, Fernandinho, Lampard, sem er að fara, og Yaya Touré, sem verður 33 ára í maí. Ef þeir verða komnir með Bony þá er svo gott að hafa Gylfa þarna því hann er alltaf með góðar fyrigjafir,“ sagði Hjörvar og Ríkharður var sammála.

„Hann er búinn að vera einn af þeim leikmönnum sem er áberandi í deildinni þannig hann hlýtur að vera þeirri umræðu þegar að eitthvað lið er að hugsa um leikmann í þessa stöðu. Eina sem mælir móti City er að þeir spila svo oft með tvo framherja að hann myndi ekki passa jafnvel þar og annarsstaðar.“

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Swansea samþykkti tilboð City í Bony

Enska úrvalsdeildarliðið Swansea City sem Gylfi Þór Sigurðsson leikur með hefur samþykkt tilboð Englandsmeistara Manchester City í framherjann Wilfried Bony.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×