Erlent

Kúbuvindillinn ekki lengur bannaður í Bandaríkjunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kona að rúlla vindil í vindlaverksmiðju í Havana.
Kona að rúlla vindil í vindlaverksmiðju í Havana. Vísir/Getty
Frá og með föstudeginum geta Bandaríkjamenn notað kreditkortin sín á Kúbu og reykt Kúbuvindla á bandarískri grundu, en nýjar viðskipta-og ferðareglur á milli Kúbu og Bandaríkjanna taka gildi þá.

Nýju reglurnar eru liður í samkomulagi ríkjanna um aukin og bætt samskipti en það var kynnt fyrir tæpum mánuði síðan.

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna sagði í yfirlýsingu í gær að reglurnar væru eitt af mörgum skrefum í átt að því að fella úr gildi úr sér gengna utanríkisstefnu gagnvart Kúbu sem hefði ekki virkað sem skyldi. Í staðinn komi stefna sem hefði það að markmiði að auka efnahagslegt og pólitískt frelsi á eyjunni.

170.000 Bandaríkjamenn fengu leyfi til að ferðast til Kúbu á seinasta ári og Bandaríkjamönnum er enn ekki að fullu frjálst að ferðast til eyjarinnar. Með nýju reglunum geta þeir þó ferðast þangað án leyfis bandarískra yfirvalda, ef þeir eru til dæmis að fara þangað sem fræðimenn eða listamenn.

Þá verður bandarískum fyrirtækjum einnig gert auðveldara að flytja inn farsíma og annan hugbúnað til Kúbu, auk internetþjónustu.

 

Samkomulag ríkjanna um bætt og aukin samskipti er ávöxtur átján mánaða leynilegra viðræðna sem fóru að stórum hluta fram í Kanada og voru hvattar áfram af páfanum, en lokafundurinn í viðræðunum fór fram í Vatíkaninu.


Tengdar fréttir

„Okey þetta er kúbanskt fu..... freestyle“

Tónlistarmennirnir Tómas R. Einarsson og Erpur Eyvindarson sem þekkja báðir vel til Kúbu eru ánægðir með fréttir af þíðu í samskipum Bandaríkjanna og Kúbu.

Kommúnisminn mun ekki víkja á Kúbu

Raul Castro Kúbuforseti hefur fagnað sögulegum sáttum Bandaríkjastjórnar og Kúbu en leggur jafnframt áherslu á að Kúbumenn muni ekki breyta stjórnarfari í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×