Enski boltinn

Öruggt hjá West Ham gegn Hull | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sune Aluko og James Tomkins eigast við.
Sune Aluko og James Tomkins eigast við. vísir/getty
West Ham vann öruggan sigur á Hull City á Upton Park í dag með þremur mörkum gegn engu. Með sigrinum komust Hamrarnir upp fyrir Liverpool í 7. sæti deildarinnar. West Ham er nú með 36 stig, fjórum stigum frá Meistaradeildarsæti. Hull er hins vegar í fallsæti með 19 stig en liðið hefur aðeins unnið fjóra leiki í vetur.

Staðan var markalaus í hálfleik, en James Tomkins og Enner Valencia komust næst því að skora fyrir West Ham. Sune Aluko fékk besta færi Hull þegar hann slapp inn fyrir vörn West Ham en James Collins bjargaði á síðustu stundu.

Eftir fjögurra mínútna leik í seinni hálfleik kom Andy Carroll West Ham yfir þegar hann ýtti boltanum yfir línuna eftir að MCGregor varði skot Valencia út í teiginn. Þetta var fimmta deildarmark Carrolls í vetur en hann hefur spilað vel í undanförnum leikjum.

Varamaðurinn Morgan Amalfitano tvöfaldaði forystu West Ham á 69. mínútu þegar hann lyfti boltanum yfir McGregor af stuttu færi eftir sendingu frá Valencia.

Þremur mínútum síðar bætti Stewart Downing þriðja markinu við eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörn Hull frá Alex Song.

Kevin Nolan var svo nálægt því að skora fjórða markið um fimm mínútum fyrir leikslok, en skot fyrirliðans fór í slána.

Fleiri urðu mörkin ekki og West Ham fagnaði öruggum sigri sem er mikilvægur í baráttunni um Evrópusæti.

West Ham 1-0 Hull West Ham 2-0 Hull West Ham 3-0 Hull



Fleiri fréttir

Sjá meira


×