Enski boltinn

Mourinho dreymdi um Gerrard í Chelsea-búningnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard og Jose Mourinho.
Steven Gerrard og Jose Mourinho. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, viðurkenndi í viðtali við BBC að ein af mestu vonbrigðum hans á félagsskiptamarkaðnum var þegar honum tókst ekki að tæla Steven Gerrard frá Liverpool.

Mourinho var nálægt því að fá Steven Gerrard til að koma til Chelsea árið 2005 en Liverpool-maðurinn ákvað síðan að vera áfram hjá Liverpool.

„Við gerðum allt til þess að fá hann og það munaði svo litlu að hann kom til okkar," sagði Jose Mourinho við BBC.

„Mig dreymdi um Claude Makelele, Gerrard og Frank Lampard saman á miðju Chelsea," sagði Jose Mourinho.

„Hans fólk var opið fyrir því að hann kæmi til okkar en Gerrard sjálfur sagði aldrei að hann myndi koma.Gerrard er rauður í gegn og ég held að það hafi verið rétt ákvörðun hjá honum," sagði Mourinho.

Steven Gerrard er á sínu síðasta tímabili með Liverpool en hann mun fara til bandaríska liðsins LA Galaxy í vor.

Liverpool og Chelsea mætast á Anfield á morgun í fyrri undanúrslitaleik liðanna í enska deildabikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×