Kolbeinn Sigþórsson er ekki í hópi 23 leikmanna Ajax sem heldur í æfingaferð til Austurríkis á morgun en þetta var tilkynnt á heimasíðu Ajax í dag.
Síðustu daga hefur verið greint frá því að franska úrvalsdeildarfélagið Nantes sé við það að ganga frá kaupum á Kolbeini fyrir þrjár og hálfa milljón evra.
Forseti félagsins lét hafa eftir sér að Nantes væri að kaupa framherja frá stóru evrópsku félagi og að landslið hans væri í efsta sæti síns riðils í undankeppni EM 2016.
Franskir fjölmiðlar fullyrða að aðeins eigi eftir að ganga frá nokkrum smáatriðum til að kaupin geta gengið í gegn.
