Fótbolti

Forsetinn staðfestir komu Kolbeins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Waldemar Kita, forseti franska úrvalsdeildarfélagsins Nantes, hefur svo gott sem staðfesti komu íslenska landsliðsmannsins Kolbeins Sigþórssonar.

Sögusagnir hafa verið á kreiki um að Nantes hafi áhuga á Kolbeini og hollenskir fjölmiðlar greindu frá því að Nantes hafi gert Ajax tilboð í kappann.

Nú virðist sem að félagaskiptin séu handan við hornið og að félögin hafi náð samkomulagi.

„Framherji frá stóru evrópsku félagi mun ganga til liðs við okkur,“ sagði Kita í samtali við útvarpsstöð í Frakklandi. „Landsliðið hans er efst í sínum riðli í undankeppni EM 2016,“ bætti hann við en Ísland er efst í A-riðli undankeppninnar.

Kolbeinn hefur verið á mála hjá Ajax í fjögur ár og klæðst treyju númer níu. Nú hefur það spurst út að pólski framherjinn Arkadiusz Milik hefur fengið níuna hjá Ajax sem þykir renna enn frekari stoðum undir fregnirnar af brotthvarfi Kolbeins.

Franska stórblaðið L'Equipe segir að félagaskiptin séu svo gott sem frágengin en Kolbeinn yrði fjórði nýi leikmaður Nantes í sumar, hinir eru Wilfried Moimbe, Adrien Thomasson og Adryan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×