Enski boltinn

Nasri: Það er ekkert sérstakt við Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samir Nasri fagnar marki sínu gegn Stoke.
Samir Nasri fagnar marki sínu gegn Stoke. Vísir/Getty
Samir Nasri, leikmaður Manchester City, liggur ekki mikið á skoðunum sínum og segir nú að hann hafi ekki mikið álit á toppliði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

Nasri skoraði eitt marka City í 4-1 sigri liðsins á Stoke á miðvikudag en hann segir að sér hafi ekki þótt mikið til Chelsea koma í báðum leikjum liðsins gegn City í vetur. Báðum lauk með 1-1 jafntefli.

City er sem stendur sjö stigum á eftir Chelsea á toppi deildarinnar en Nasri hefur fulla trú á því að hans menn nái að vinna upp þann mun fyrir lok tímabilsins.

„Ég er mikill aðdáandi [Jose] Mourinho [stjóra Chelsea] en mér finnst ekki mikið til liðsins hans koma, alls ekki,“ sagði Nasri við fjölmiðla ytra. „Við höfum spilað við þá tvisvar - í öðrum leiknum manni færri. Við vorum betri en þeir í báðum leikjum.“

„Miðað við það sem ég hef séð er ekkert sérstakt við Chelsea og liðið er ekki frábært. Þeir eru bara sterkir og með góðan framherja. Chelsea mun gera mistök og við þurfum bara að sjá til þess að við vinnum okkar leiki.“

„Það verður barist um titilinn til loka tímabilsins. Ekkert lið vinnur titilinn þegar tíu umferðir eru eftir. Við ætlum bara að fá eins mikið af stigum og við getum og bíða eftir mistökunum.“

„Ef við komumst í 90 stig verðum við Englandsmeistarar. Ef við vinnum alla leikina okkar þá setur það pressu á Chelsea. Okkur skortir stundum stöðugleika en í næstu viku fáum við þá Yaya [Toure] og [Wilfried] Bony til baka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×