Innlent

Þingmaður vill skoða að breyta sönnunarfærslu í kynferðisbrotamálum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Í fyrsta lagi ætla ég að kynna mér framkvæmdina hér heima alveg út í hörgul. Kynna mér hlutfallið milli nauðgana, kærðra atburða og dómafjölda. Ef hann er svipaður og í Bretlandi þá tel ég fulla ástæðu að endurskoða hvernig þessi mál eru rannsökuð og hvernig er með þau farið hér heima,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í Reykjavík síðdegis aðspurður hvort hann hyggist leggja til á þinginu að málsmeðferð í kynferðisbrotamálum verði tekin til endurskoðunar.

Í upphafi viðtalsins beindi Þorsteinn sjónum sínum út fyrir landsteinana. Bretar ákváðu nýverið að í stað þess að fórnarlamb þurfi að sýna fram á að sér hafi verið nauðgað yrði meintur gerandi að sýna að hann hafi fengið skýrt samþykki til samfara. Talið er að brotið sé á um 85.000 konum á ári í Bretlandi og níu af hverjum tíu þekki gerandann. Af brotaþolunum séu hins vegar aðeins 16.000 sem kæri, 2.900 mál fara fyrir dóm og sakfelling á sér stað í rétt rúmlega þúsund málum.

„Bretar ætla að færa fókusinn á meintan geranda í stað þess að hann sé á fórnarlambinu,“ segir Þorsteinn. Hann bætir við að þeir ætli ekki að fara svo langt að krefjast öfugrar sönnunarbyrði en þó að létta aðeins á fórnarlambinu. „Mörg fórnarlömb hafa lýst því hve erfitt það sé að fara í yfirheyrslur og slíkt. Spurning hvort það sé hægt að létta fórnarlömbum það.“

Talsverð umræða hefur verið að undanförnu hér á landi í kjölfar sýknudóma í kynferðisbrotamálum hér á landi. Má þar á meðal nefna tilvik þar sem fimm ungir drengir voru sýknaðir af ákæru um að hafa hópnauðgað stúlku.

„Það er nú sagt að maður eigi ekki að deila við dómaranna en fimm þegar menn sem safnast að drukkinni unglingsstúlku, maður skilur það eiginlega ekki alveg. Ég tel að þessir nýju dómar þeir hljóta að verða til þess að við hugsum þessi mál öðruvísi og reynum að breyta hlutföllunum fórnarlömbunum í hag,“ segir Þorsteinn.

Viðtalið í heild sinni fylgir fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×