Enski boltinn

Henry: Hélt að áreitið á lestarstöðinni væri grín

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thierry Henry og Arsene Wenger eru miklir vinir.
Thierry Henry og Arsene Wenger eru miklir vinir. vísir/afp
Thierry Henry, goðsögn í lifanda lífi hjá enska knattspyrnuliðinu Arsenal, trúði því ekki fyrst þegar honum var sagt að sumir stuðningsmanna liðsins hefðu áreitt knattspyrnustjórann og liðið eftir leik þess gegn Stoke í desember.

Arsenal tapaði á útivelli gegn Stoke í síðasta mánuði, 3-2, eftir að lenda 3-0 undir, og á lestarstöðinni eftir leikinn hrópuðu stuðningsmenn liðsins miður fallega hluti að Wenger og strákunum þegar þeir gerðu sig tilbúna til brottfarar.

Henry, sem lagði skóna á hilluna eftir tímabilið með NY Red Bull í Bandaríkjunum, átti ekki orð þegar hann komst að því að þetta var satt.

„Ég hélt þetta væri grín þegar ég heyrði af þessu fyrst,“ segir Frakkinn í viðtali við The Independent.

„Menn geta verið vonsviknir, ég skil það vel. En það sem gerðist eftir Stoke-leikinn var óþarfi. Stuðningsmenn mega hafa skoðun en þetta var ekki boðlegt.“

Arsenal kom fram hefndum gegn Stoke á sunnudaginn þegar liðið vann 3-0 sigur. Álexis Sánchez fór einu sinni sem oftar á kostum og skoraði tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×