Enski boltinn

Tottenham lenti 2-0 undir en vann samt - Southampton líka áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vlad Chiriches og Younes Kaboul fagnar marki í kvöld.
Vlad Chiriches og Younes Kaboul fagnar marki í kvöld. Vísir/Getty
Ensku úrvalsdeildarliðin Southampton og Tottenham komust í kvöld í 4. umferð ensku bikarkeppninnar ásamt C-deildarliðinu Bradford City en þau unnu þá öll endurtekna leiki í 3. umferð keppninnar.

Tottenham náði að vinna 4-2 heimasigur í úrvalsdeildarslag á móti Burnley. Burnley komst í 2-0 eftir aðeins átta mínútna leik á White Hart Lane en Tottenham var búið að jafna fyrir hálfleik og skoraði síðan tvö mörk á fyrstu sjö mínútum í seinni hálfleik.

Paulinho, Étienne Capoue, Vlad Chiriches og Danny Rose skoruðu mörk Tottenham-liðsins í leiknum en Roberto Soldado lagði upp tvö markanna alveg eins og Paulinho.

Tottenham mætir Leicester City á heimavelli í úrvalsdeildarslag í fjórðu umferð keppninnar.

Shane Long tryggði Southampton 1-0 útisigur á Ipswich Town en markið kom strax á 19. mínútu leiksins. Liðin höfðu gert 1-1 jafntefli í fyrri leiknum á heimavelli Southampton.

Southampton mætir Crystal Palace á heimavelli í úrvalsdeildarslag í fjórðu umferð keppninnar.

C-deildarliðið Bradford City vann 4-0 heimasigur á Millwall í þriðja leik kvöldsins en Bradford skoraði öll mörkin eftir að liðið varð manni fleiri.

Bradford City fær verðugt verkefni í fjórðu umferð keppninnar þegar C-deildarliðið heimsækir Chelsea á Stamford Bridge.



Úrslit og markaskorarar í ensku bikarkeppninni í kvöld:

Bradford - Millwall    4-0

1-0 James Hanson (8.), 2-0 Jon Stead (17.), 3-0 Andy Halliday (38.), 4-0 Billy Knott (56.). Millwall missti Mark Beevers af velli á 6. mínútu með rautt spjald.

Ipswich - Southampton    0-1

0-1 Shane Long (19.)

Tottenham - Burnley    4-2

0-1 Marvin Sordell (3.), 0-2 Ross Wallace (8.), 1-2 Paulinho (10.), 2-2 Étienne Capoue (45.), 3-2 Vlad Chiriches (49.), 4-2 Danny Rose (52.).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×