Innlent

Mál Árna Johnsen einstakt

Jakob Bjarnar skrifar
Verði fasteignamati ekki breytt afturvirkt hefur Reykjavíkurborg ekki heimildir til að breyta álagningu fasteignagjalda.
Verði fasteignamati ekki breytt afturvirkt hefur Reykjavíkurborg ekki heimildir til að breyta álagningu fasteignagjalda.
Af upplýsingum frá Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar má álykta að mál Árna Johnsen, fyrrverandi þingmanns, sem auglýsir hús sitt til sölu sem er talsvert stærra en fasteignaskrá segir til um, sé einstakt.

Vísir greindi frá málinu í gær, en hús í eigu Árna er skráð um 100 fermetrum minna en það er í raun og veru. Þetta þýðir einfaldlega það að Árni hefur ekki greitt fasteignagjöld af 90 fermetra eign, sem er ósamþykkt íbúð, en árleg gjöld af slíkri eign eru um 75 þúsund krónur á ári.

Árni taldi þetta algengt í samtali við Vísi í gær en starfsmenn Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar þekkja ekki dæmi þess að mál af þessu tagi hafi komið upp. Í einstaka tilvikum hefur þó komið í ljós að eignir eru minni en samkvæmt skráningu. Í langflestum tilvikum er þá um að ræða örfáa fermetra. 

Ívar Örn Ívarsson, lögfræðingur hjá fjárstýringardeild Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, segir í skriflegu svari við almennri fyrirspurn Vísis um fasteignaskráningar að fasteignagjöld séu lögð á í samræmi við fasteignamat sem Þjóðskrá ákvarðar.

„Reynist raunstærð eignar umtalsvert stærri en skráð stærð hennar, og þar af leiðandi fasteignamat hennar of lágt, þarf að skoða hvort Reykjavíkurborg geti óska eftir endurupptöku á því hjá Þjóðskrá á grundvelli 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga. Þjóðskrá hefur talið sér heimilt, á grundvelli 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga, að leiðrétta fasteignamat afturvirkt hafi misritun eða reikningsskekkja af hálfu stofnunarinnar orðið þess valdandi að efnisleg ákvörðun um fasteignamat verði röng.“

Að sögn Ívars Arnar er það svo að verði fasteignamati ekki breytt afturvirkt hefur Reykjavíkurborg ekki heimildir til að breyta álagningu fasteignagjalda.

Uppfært klukkan 17:40

Starfsmenn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar vilja koma því á framfæri að svörin að ofan voru við almennri fyrirspurn Vísis. Þau svari ekki fyrirspurnum um fasteignir Árna Johnsen eða annarra borgarbúa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×