Innlent

Bíll varð alelda á Nýbýlavegi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Slökkviliðið sinnti útkalli á Hverfisgötu í kvöld. Annríki hefur verið hjá þeim síðustu tíma.
Slökkviliðið sinnti útkalli á Hverfisgötu í kvöld. Annríki hefur verið hjá þeim síðustu tíma. Vísir / Þorgeir Ólafsson
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins þurfti að slökkva eld sem kviknaði í bifreið á Nýbýlavegi í dag. Eldurinn kom upp á meðan bíllinn var á ferð og þurfti ökumaðurinn að stöðva bílinn til að forða sér og barni, sem var farþegi í bílnum, frá skaða.

Ekki leið á löngu þar til bíllinn var orðinn alelda en hann gjöreyðilagðist. Engan sakaði en sjúkrabílar voru engu að síður sendir á vettvang til að huga að fólkinu. Ekki þótti ástæða til frekari meðhöndlunar.  

Þetta segir Sigurður Lárus Sigurðsson, vaktstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Hann segir að annríki hafi verið hjá slökkviliðinu í dag og kvöld.

Slökkviliðið var einnig kallað á Hverfisgötu vegna reyks sem sást koma undan þaki. Þegar komið var á staðinn kom í ljós að um var að ræða gufu upp úr niðurfalli í þakrennu. Þá var dælubíll sendur að Vættarskóla þar sem kveikt hafði verið í rusli.

Vegfarandi tilkynnti eldinn en náði sjálfur að slökkva hann með slökkvitæki. Unnið er nú að því að slökkva í öllum glæðum.

Slökkvilið þurfti einnig að bregðast við hörðum árekstri í Árbæ þar sem þurfti að hreinsa upp olíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×