Innlent

Friðarsúlan tendruð í blíðskaparviðri

Atli Ísleifsson skrifar
Friðarsúlan í kvöld.
Friðarsúlan í kvöld. Vísir / Vilhelm
Friðarsúlan var tendruð í Viðey klukkan 20 í kvöld. Þetta er í áttunda árið í röð sem Friðarsúlan er tendruð á afmælisdegi Johns Lennon, 9. október.

Í tilkynningu frá Höfuðborgarstofu segir að rúmlega 2.100 manns hafi verið staddir í Viðey þegar Friðarsúlan var tendruð og hafa aldrei verið fleiri.

Dagskrá hófst með tónlist klukkan 19 og var Friðarsúlan svo tendruð klukkustund síðar. „Yoko Ono bauð upp á fríar siglingar út í Viðey líkt og fyrri ár og hafa greinilega margir ákveðið að nýta sér þann kost. Yoko Ono var hæstánægð og fór hún fögrum orðum um Ísland fyrr í dag þegar hún veitti viðurkenningar úr friðarsjóðnum Lennon Ono Grant For Peace á athöfn í Hörpu.“

Friðarsúlan er tendruð ár hvert á fæðingardegi John Lennon, 9. október, og lýsir hún upp kvöldhimininn fram til 8. desember en þann dag dó Lennon árið 1980. Í ár hefði hann orðið 74 ára gamall.

Yoko Ono segist hafa fengið hugmyndina að friðarsúlu árið 1967. Á stalli súlunnar eru grafin orðin „hugsa sér frið“ eða „imagine peace“ á 24 tungumálum, þar á meðal á íslensku, ensku, þýsku, japönsku og hebresku. Enska heitið er vísun í lagið „Imagine“ eftir John Lennon.

Yoko Ono hélt tölu áður en tendrað var á Friðarsúlunni.Vísir/Bjarni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×