Innlent

Eigandi hundaskólans segir atvikið slys

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá tíma í erlendum hundaskóla.
Frá tíma í erlendum hundaskóla. Vísir/Getty
Ásta Dóra Ingadóttir, eigandi hundaskólans Gallerí Voff, segir að atvik líkt og það sem kom upp í seinustu viku, þar sem Husky-hundur slasaði smáhund, hafi aldrei gerst áður í 25 ára sögu hundaskólans. Ásta segist hafa margbeðið eiganda smáhundsins afsökunar kvöldið sem atvikið átti sér stað og hún hefur þar að auki sent henni bréf.

„Ég borgaði einnig lækniskostnaðinn og ég veit eiginlega ekki hvað hún vill meira. Það er eins og verið sé að reyna að hafa af mér lifibrauðið mitt vegna atviks sem tók 2-3 sekúndur,“ segir Ásta.

Sigrún Guðlaugsdóttir, eigandi smáhundsins, segir að litlu hafi munað að hún færi með hræ heim úr hundaskólanum. Í samtali við Vísi segist hún bæði hafa ákært Ástu Dóru og eiganda Husky-hundsins.

„Ég er búin að kæra eigandann fyrir að vera með hættulegan dýrbít og ég er búin að kæra hundaþjálfarann fyrir gáleysi þar sem dýr slasaðist í aðstæðum sem hún átti að hafa fulla stjórn,“ segir Sigrún.

Stefán Arnarsson, eigandi Husky-hundsins, segir að hundur sinn sé ekki hættulegur öðrum dýrum.

„Ég er jafnvel að íhuga að kæra eiganda smáhundarins fyrir meiðyrði þar sem hún heldur því fram að ég eigi hættulegan dýrbít. Það er fjarri lagi,“ segir Stefán í samtali við Vísi.

Ásta segir að atvikið í síðustu viku hafi verið slys og lýsir því eins og það snýr að henni:

„Þarna voru hvolpar á námskeiði og Husky-hundurinn fer að skoða smáhundinn og ýtir við honum með trýninu. Smáhundurinn verður þá mjög hræddur og en við gripum strax inn í og þetta var stoppað.“

Aðspurð hvers vegna hundarnir hafi verið lausir segir hún það hluta af námskeiðinu þegar um hvolpa sé að ræða.

„Þegar þeir eru ungir og ekki orðnir kynþroska er það partur af því að kenna þeim að umgangast aðra hunda á friðsamlegan hátt að leyfa þeim að vera lausir. Það er þó þannig að allir standa með sínum hundi og eiga ekki að leyfa honum að fara inn í hópinn án þess að hann sé tilbúinn. Þá á eigandinn einnig að reka aðra hunda frá sínum hundi ef hann er ekki tilbúinn til að eiga samskipti.“

Ásta segir að þegar hundar séu svo komnir 7 mánaða aldurinn fái þeir aldrei að þefa af öðrum hundum þar sem þeir séu orðnir kynþroska og því ekki víst hvort þeir vilji hafa aðra hunda utan í sér.

Stolt af hundaskólanum

Aðspurð segir Ásta að börn megi ekki koma með í fyrsta tímann þar sem reynslan sýni að börn hafi ekki eirð í sér til að sitja kyrr í klukkutíma á meðan verið sé að vinna með hundana í skólanum. Síðar á námskeiðinu megi börn koma með.

Ásta leggur áherslu á að hundar séu lifandi dýr og það sé mikilvægt að fólk læri að grípa inn í. Hundar taki ekki skynsamlegar ákvarðanir, þeir séu ekki fólk, og það þurfi því að eiga við þá með öðru hugarfari.

„Að sjálfsögðu er allt gert til að koma í veg fyrir að eitthvað þessu líkt gerist og hingað til hefur það tekist. Fólk kemur hingað í hundaskólann aftur og aftur og ég er mjög stolt af skólanum sem ég hef núna lifað af í 25 ár.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×