Innlent

„Munaði litlu að ég kæmi með hræ til baka“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Smáhundinn Snældu má sjá á hér til hægri.
Smáhundinn Snældu má sjá á hér til hægri.
Husky-hundur réðst á smáhund á hundaþjálfunarnámskeiði í seinustu viku í hundaskólanum Gallerí Voff í Mosfellsbæ. Sigrún Guðlaugsdóttir, eigandi hundsins sem ráðist var á, sagði frá atvikinu á Facebook í gær. Tíkin hennar, Snælda, rifbeinsbrotnaði í árásinni auk þess sem húð rifnaði frá, svo loft komst þar undir.

„Ég er búin að kæra eigandann fyrir að vera með hættulegan dýrbít og ég er búin að kæra hundaþjálfarann fyrir gáleysi þar sem dýr slasaðist í aðstæðum sem hún átti að hafa fulla stjórn,“ segir Sigrún í samtali við Vísi.

Hún segir það hafa verið mikil mistök að treysta hundaþjálfaranum. Hundunum hafi verið sleppt lausum á fyrstu 10 mínútunum í fyrsta tímanum og segir Sigrún það gáleysislegt fyrirkomulag. Hundar séu gjarnan stressaðir í nýjum aðstæðum og hundaþjálfarinn hafi þarna ekki getað vitað hvernig þeir myndu bregðast við því að vera lausir þar sem hún þekkti ekki hundana og þeirra persónuleika.

„Það munaði litlu að ég kæmi með hræ til baka en það hefði hæglega getað farið svo ef árásin hefði ekki verið stöðvuð,“ segir Sigrún.

Fékk enga afsökunarbeiðni

Hún segist vera mjög sár yfir því að eigandi Husky-hundsins hafi ekki stigið fram áður en hundunum var sleppt og sagt að hundurinn myndi ekki ráða við aðstæður. Eigandinn ætti að þekkja hundinn sinn betur.

Sigrún segist hafa verið mjög reið við hundaeigandann eftir árásina og beðið hann um að fara út með hundinn sinn sem hann gerði ekki. Það hafi henni fundist mjög skrýtið.

„Hann baðst ekki afsökunar eða athugaði með líðan hundsins okkar eða neitt slíkt. Hann hefur heldur ekkert haft samband eftir þetta og mér sárnar það. Það er eins og honum sé alveg sama.“

Eftir árásina bað hundaþjálfarinn Sigrúnu um að vera áfram á námskeiðinu sem hún gerði.

„Ég var þarna í smástund í viðbót en fór svo. Snælda var náttúrulega í taugaáfalli og ég líka. Við fórum með hana á neyðarvaktina í Víðidal og það kemur í ljós að hún er slösuð. Það sást ekki mikið á henni, var ekki mikið blóð eða neitt slíkt, en hún var bólgin.“

Snælda er öll að koma til en er þó mjög hrædd við aðra hunda.Mynd/Facebook
Börn ekki leyfð í fyrsta tíma

Sigrún hefur ýmislegt við fyrirkomulag hundaþjálfunarnámskeiðsins að athuga. Hún setur  meðal annars spurningamerki við að blanda saman smáhundum og Husky-hundum á svona námskeiði.  Hún viti einnig til þess að  á öðrum hundanámskeiðum sé hundum ekki sleppt lausum fyrr en á miðju námskeiði og það sé þá gert mjög varfærnislega svo ekki fari illa

Þar að auki hafi börn ekki mátt koma með í fyrsta tímann og veltir Sigrún því fyrir sér hvers vegna svo hafi verið. Ef til vill hafi hundaþjálfarann grunað að eitthvað slæmt gæti gerst.

„Dóttir okkar var til dæmis heima og beið spennt eftir að Snælda kæmi heim úr fyrsta hundaþjálfunartímanum. Svo  þegar árásin á sér stað var það eina sem ég gat hugsað um að ég kæmi með hræ heim til dóttur sinnar.

Sigrún fékk námskeiðið endurgreitt á staðnum og útlagðan lækniskostnað nokkrum dögum síðar. Það sé þó engin sátt í því.

„Ég er enn mjög sár og ósátt yfir þessu öllu, og kannski sérstaklega vegna þess að ég treysti hundaþjálfaranum sem á að vera fagmanneskja í þessu.“

Aðspurð segir Sigrún að Snælda sé öll að koma til. Beinbrot taki um 6 vikur að jafna sig og þá sé tíkin  enn mikið bólgin. Hún sé því á verkjalyfjum og bólgueyðandi. Hún sé hins vegar afar hrædd núna við aðra hunda og hafi til dæmis orðið mjög hrædd þegar hún sá annan smáhund á taumi á Klambratúni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×