Innlent

„Hundurinn minn er ekki hættulegur dýrbítur“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stefán segir eiganda smáhundsins hafa verið mjög dónalega við sig.
Stefán segir eiganda smáhundsins hafa verið mjög dónalega við sig. Vísir/AFP
Stefán Arnarson eigandi Husky-hundsins sem réðst á smáhund á hundaþjálfunarnámskeiði í seinustu viku segir hundinn ekki vera hættulegan dýrbít.

„Ég er jafnvel að íhuga að kæra eiganda smáhundarins fyrir meiðyrði þar sem hún heldur því fram að ég eigi hættulegan dýrbít. Það er fjarri lagi,“ segir Stefán í samtali við Vísi.

Stefán segir að hundurinn sinn hafi ekki ætlað að drepa litla hundinn.

„Ef að hundurinn minn hefði ætlað að drepa smáhundinn og verið með einhverja grimmd þá hefði hann bitið strax. Hann gerði það hins vegar ekki heldur setti hann smáhundinn á milli framlappanna á sér og ýtti honum niður í jörðina að ég held þrisvar sinnum,“ segir Stefán.

Hann segist ekki vita hvers vegna Husky-hundurinn hafi ráðist á smáhundinn. Stefán segist sjálfur eiga smáhund og að Husky-inn sé því vanur að vera í kringum litla hunda. Smáhundurinn á hundanámskeiðinu hafi hins vegar vælt mikið og það hafi ef til vill æst Husky-hundinn meira upp.

„Ég var auðvitað í sjokki eins og aðrir þarna yfir þessum atburði. Tíkin mín var mjög róleg en svo þegar henni var sleppt æstist hún upp. Þegar hún ræðst á hinn hundinn tek ég hana auðvitað frá og skamma hana.“

Stefán segir að eigandi smáhundsins hafi verið mjög reið og dónaleg við sig.

„Talaði við mig eins og þetta hafi verið viljandi gert“

„Hún sagði við mig að hún hafi séð það á hundinum mínum að hann myndi gera eitthvað af sér. Ég veit ekki alveg hvað hún meinti með því. Svo sagði hún að það væri ekki skrýtið að Husky væri alltaf í fjölmiðlum fyrir að drepa smáhunda. Hún talaði við mig alveg eins og þetta hafi verið viljandi gert en það var auðvitað ekki þannig. Ég bað hana ekki afsökunar af því hún var svo dónaleg.“

Aðspurður hvað hefði verið hægt að gera til að koma í veg fyrir árásina segir hann að ef til vill hefði verið hægt að lesa betur í aðstæður.

„En svo eru þetta bara hundar og maður veit auðvitað aldrei hvað getur gerst. Hundaþjálfarinn sagði svo við mig að svona hefði aldrei gerst áður á námskeiði hjá henni,“ bætir hann við að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×