Erlent

George W. Bush opnar myndlistasýningu

Ingvar Haraldsson skrifar
Málverkið af Vladimir Pútín sem Bush telur vera sitt besta verk.
Málverkið af Vladimir Pútín sem Bush telur vera sitt besta verk. Mynd/AP
George W. Bush fyrrverandi Bandaríkjaforseti opnaði um helgina myndlistasýningu í Dallas. Til sýnis eru málverk af 24 þjóðhöfðingjum sem hann hitti í forsetatíð sinni.

 

Málverk af Dalai Lama, Angelu Merkel, Tony Blair og Vladimir Pútín eru meðal verka sem prýða sýninguna. George W. Bush telur myndina af Pútín vera sitt besta verk. Á málverkinu er Pútín óræður á svip. Það er í andstöðu við orð Bush eftir fyrsta fund þeirra þegar Bush sagðist lesa Pútín eins og opna bók.

 

Listgagnrýnendur telja Bush færan málara. Þó finnst mörgum undarlegt að fyrrverandi forseti Bandaríkjanna stundi slíka iðju. Rithöfundurinn Lawrence Weschler telur furðulegt að fyrrum valdamesti maður heims vilji hvorki skrifa um né réttlæta gjörðir sínar heldur bara mála gamla kunningja.

 

Philip Kennicott, listgagnrýndi hjá The Washington Post, telur að Bush sýni af sér mannlegri og einlægari hlið en áður hefur sést. Það sé líkt og hann voni að ekki verði hlegið af honum fyrir málverkin.

 

Bush málar daglega og því gæti verið von á fleiri sýningum frá honum í framtíðinni. 

 

Frekar má lesa um málið á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×