Haukar eru komnir upp í fimmta sæti 1. deildar karla eftir 4-1 sigur á KV í kvöld.
Þetta var annar sigur Hauka í röð en liðið er með nú með átta stig að loknum sex leikjum.
Hilmar Rafn Emilsson skoraði tvívegis fyrir Hauka í kvöld og þeir Brynjar Benediktsson og Andri Steinn Birgisson eitt hvor.
Atli Jónasson, markvörður KV, skoraði svo eina mark sinna manna úr vítaspyrnu þegar lítið var eftir í leiknum.
KV hafði unnið tvo leiki í röð fyrir þennan en er nú í áttunda sæti deildarinnar með sjö stig.
Grindavík og Þróttur skildu svo jöfn, 1-1, í síðari leik kvöldsins. Juraj Grizelj kom Grindavík yfir með marki úr vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks en Ragnar Pétursson jafnaði metin fyrir Þrótt í síðari hálfleik.
Þróttur er í þriðja sæti með tíu stig en Grindavík í því tíunda með fjögur stig.
