Erlent

Heilaþvegin og send til Sýrlands

Freyr Bjarnason skrifar
Jejoen Bontinck, sem er lykilvitni í réttarhöldunum, ásamt lögfræðingi sínum í Belgíu í gær.
Jejoen Bontinck, sem er lykilvitni í réttarhöldunum, ásamt lögfræðingi sínum í Belgíu í gær. Fréttablaðið/AP
Róttæk stofnun múslima í Belgíu voru hryðjuverkasamtök sem heilaþvoðu ungmenni og sendu þau til að berjast í Sýrlandi. Þetta sögðu saksóknarar í réttarhöldum sem hófust í gær yfir tugum meintra liðsmanna samtakanna.

Aðeins átta af 46 grunuðum meðlimum Sharia4Belgium-hópsins voru viðstaddir upphaf réttarhaldanna. Talið er að margir þeirra sem mættu ekki séu að berjast í Sýrlandi eða hafi þegar dáið í borgarstyrjöldinni í landinu.

Meintur leiðtogi samtakanna, Fouad Belkacem sem er í varðhaldi, var leiddur handjárnaður inn í réttarsalinn. Hann hlustaði þögull á þegar saksóknarinn Ann Fransen sagði að leiðtogar hryðjuverkasamtaka eigi yfir höfði sér að hámarki 15 til 20 ára fangelsi.

Dómsmálið, sem er eitt stærsta hryðjuverkamál Belgíu, snýst um að samtökin Sharia4Belgium hafi komist í samband við unga múslima í gegnum samskiptasíður á netinu og víðar og sent þá til Sýrlands í bardaga.

Að sögn saksóknarans töldu foreldrar sumra þeirra sem fóru til Sýrlands að börnum þeirra hefði aldrei dottið í hug að fara þangað ef þau hefðu ekki verið heilaþvegin af samtökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×