Innlent

Heitu pottarnir komnir í leitirnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/ Á. Óskarsson ehf.
Tveir heitir pottar sem stolið var á sunnudagsmorgun frá fyrirtækinu Á. Óskarson ehf. í Mosfellsbæ fundust í gær. Forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu heitið fundarlaunum fyrir upplýsingar sem myndu leiða til þess að pottarnir fyndust.

„Við fengum tvær ábendingar í gær frá fólki sem var staðsett í Mosfellsbænum á sunnudagsmorgun. Báðir aðilar sáu rauðan pallbíl með tvo potta um klukkan ellefu um morguninn. Það hefur líklega verið um það leyti sem þeir hafa verið að rífa grindina frá og stolið pottunum,“ segir Heiðar Reyr Ágústsson, framkvæmdastjóri Á. Óskarsson ehf.

Töluvert hefur þurft að gera til að stela pottunum þar sem þeir voru kyrfilega fastir á pallettu og til að ná þeim í burtu þurfti að rífa trégrind sem hafði verið smíðuð utan um þá.

Ungur maður sem staðsettur var í miðbænum í gær kom því á framfæri að hann hefði séð tvo potta á hvolfi í bakgarði.

„Þá kom í ljós að þetta væru pottarnir og nú er verið að leita að eigenda rauðs pallbíls,“ segir Heiðar.

Ungi maðurinn mun fá fundarlaun fyrir upplýsingarnar, en pottarnir eru þó stórskemmdir.

„Annar þeirra er næstum því ónýtur, því hann er svo sprunginn,“ segir Heiðar. „Við erum mjög ánægðir með þetta og munum væntanlega gera við þá og selja á lægra verði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×