Enski boltinn

Ljóti andarunginn hjá Spurs varð að fallegum svani í Swansea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmark Swansea gegn Manchester United í sínum fyrsta leik með félaginu eftir að hann sneri til baka og hefur síðan þá ekki litið um öxl.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmark Swansea gegn Manchester United í sínum fyrsta leik með félaginu eftir að hann sneri til baka og hefur síðan þá ekki litið um öxl. vísir/GETTY
„Þetta snýst ekki um hvernig ég spila gegn Tottenham. Þetta snýst um hvernig ég spila fyrir Swansea allt tímabilið. Það er það sem hvetur mig áfram,“ sagði hinn hógværi Gylfi Þór Sigurðsson í viðtali við enska fjölmiðla fyrir leik sinna manna í Swansea gegn Tottenham á Liberty Stadium á sunnudag.

„Það er markmið mitt að vinna alla leiki – hvort sem það er gegn liðum sem ég hef áður spilað með eða ekki.“

Ummæli Gylfa Þórs koma ekki á óvart enda velur hann orð sín vel í viðtölum við fjölmiðla, hvort sem er hérlendis eða í Englandi. Hann lætur verkin tala inni á vellinum og skilaboðin sem hann hefur sent Tottenham í haust eru skýr – „þið létuð mig spila í rangri stöðu“.

Gylfi hefur áður sagt að hann hafi aldrei verið hrifinn af því að spila á vinstri kantinum, líkt og hann gerði svo oft hjá Tottenham. Hann nýtur sín á miðjunni, helst fyrir aftan fremsta sóknarmann, enda hefur samvinna hans við Wilfried Bony verið eitruð á fyrstu mánuðum tímabilsins. Gylfi hefur lagt upp alls átta mörk í haust, þar af mörg fyrir Bony sem er markahæsti leikmaður Swansea með sjö mörk.

Það er sama hvaða tölfræði er skoðuð þegar frammistaða Gylfa hjá Tottenham er borin saman við frammistöðu hans hjá Swansea. Velska félagið hefur vinninginn í öllum þáttum. Mest áberandi er að Gylfi hefur á tveimur hálfum tímabilum (vorið 2012 og haustið 2014) átt þátt í fleiri mörkum (tíu í bæði skiptin) en á hvoru tímabilinu hans hjá Tottenham (sjö í fyrra skiptið, fimm í það síðara).

vísir/getty
Gylfi Þór hefur verið byrjunarliðsmaður í öllum fimmtán deildarleikjum Swansea til þessa í ár og þarf bara þrettán mínútur á sunnudag til að komast yfir þann mínútufjölda sem hann náði með Tottenham í fyrra.

Gylfi er þegar búinn að slá við mínútufjölda fyrra tímabils síns í Lundúnum. Hann hefur blómstrað á miðjunni hjá Swansea og gefið næstflestar stoðsendingar allra leikmanna í ensku úrvalsdeildinni í ár (átta talsins) en aðeins Cesc Fabregas hefur gefið fleiri (ellefu).

Lykillinn að öllu saman er að Gylfi er að spila í sinni stöðu. Stöðunni sem hann fékk aðeins að spila í sex byrjunarliðsleikjum af 26 alls á árunum tveimur hjá Tottenham.

Enda mátti sjá á samfélagsmiðlum eftir flutning Gylfa í suðurhluta Wales í sumar að margir stuðningsmanna Tottenham sáu eftir honum. En forráðamönnum liðsins má vera nú ljóst að Gylfi var á þeim árum sem hann var í Lundúnum vannýttur.

grafík/fréttablaðið
Það má hins vegar ekki gera lítið úr þeirri staðreynd að Gylfi fékk dýrmæta reynslu af því að spila í stórum leikjum, svo sem Lundúnarslag gegn Arsenal, og í Evrópukeppni. Þá æfði hann og spilaði með mörgum gríðarlega öflugum leikmönnum, þeirra á meðal Gareth Bale sem nú er á mála hjá Real Madrid.

„Þetta var tími sem ég naut virkilega, þrátt fyrir að það hafi líka verið nokkrir erfiðir mánuðir. Stundum er breytinga þörf í fótboltanum. Ég breytti til og er ánægður,“ sagði Gylfi.

Fá lið hafa verið betri á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni en Swansea, þrátt fyrir að hafa tapað síðustur leikjum sínum á Liberty Stadium. Liðið byrjaði tímabilið frábærlega en hefur verið að færast niður töfluna í síðustu leikjum.

Gylfi og félagar hans eru þó í áttunda sæti og því engin ástæða til að örvænta enn. Sigur á Tottenham væri þó kærkominn og myndi sjálfsagt kæta okkar mann sérstaklega, þótt hann myndi sennilega ekki viðurkenna það opinberlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×