Erlent

Greiða átti 200 þúsund dali

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bandaríski fréttaljósmyndarinn sem lést ásamt suðurafríska kennaranum Pierre Korkie.
Bandaríski fréttaljósmyndarinn sem lést ásamt suðurafríska kennaranum Pierre Korkie. fréttablaðið/AP
Suður-Afríkumenn voru langt komnir með að semja við mannræningjana í Jemen um að láta suðurafríska kennarann Pierre Korkie lausan þegar hann lést á laugardaginn í árás Bandaríkjamanna.

Bandaríkjamenn segjast ekkert hafa vitað af þessum samningaviðræðum, en Suður-Afríkumenn segjast hafa látið stjórnvöld í Jemen fylgjast með öllu sem gerðist í samningaviðræðunum.

Þá fullyrðir háttsettur leyniþjónustumaður í Jemen að bandarískir erindrekar í Sanaa, höfuðborg Jemens, hafi fyrir hálfum mánuði fengið upplýsingar um stöðu mála. Bandaríkjamenn hafi hins vegar ekki formlega beðið um upplýsingar um suðurafríska gíslinn.

Imtiaz Sooliman, stofnandi suðurafrísku hjálparsamtakanna sem áttu í samningaviðræðunum um lausn Korkies, segist ekki geta annað en trúað því að Bandaríkjamenn hafi ekki vitað að láta átti Korkie lausan: „Ef þeir segjast ekki hafa vitað það, þá vissu þeir það ekki,“ segir hann.

Korkie lést á laugardaginn ásamt bandaríska gíslinum Luke Somers, þegar bandarískar hersveitir gerðu árás á gíslatökumennina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×