Erlent

Yfirvöld búast við flóðum og skriðuföllum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hagupit skyldi eftir sig slóð eyðileggingar
Hagupit skyldi eftir sig slóð eyðileggingar Vísir/afp
Fellibylurinn Hagupit gekk yfir austurhluta Filippseyja í gær með töluverðu tjóni.

Almannavarnir í landinu höfðu gefið út viðvaranir fyrir helgi en þá mældist fellibylurinn í styrkleikaflokki fimm sem jafnframt er mesti styrkur samkvæmt Saffir-Simpson skalanum. Er hann kom að landi hafði vindhraði minnkað niður í rúma 50 metra á sekúndu og taldist hann þá í þriðja flokki.

Talið er að vindhraði muni halda áfram að minnka en mikil rigning veldur yfirvöldum hugarangri. Gert er ráð fyrir að sólarhringsúrkoma verði í kringum 400 millilítra og eru margir hræddir um að skriður muni falla í kjölfar vætunnar. Um 900 þúsund manns yfirgáfu heimili sín í kjölfar viðvarananna en aðeins er ár síðan fellibylurinn Hayian gekk yfir eyjarnar með gífurlegu mannfalli og eyðileggingu.

Fjögur dauðsföll hið minnsta hafa verið rakin til Hagupit og fjöldinn allur hefst nú við í hjálparstöðvum. Erfiðlega gengur að koma hjálpargögnum til bágstaddra en samgöngur, bæði á landi og í lofti, liggja niðri. Hermenn vinna nú að því að hreinsa vegi og flugvelli til að hjálparstarf geti hafist.

Hagupit mun halda áfram för sinni vestur yfir eyjarnar og ganga yfir að tveimur dögum liðnum. Talið er að hann fari yfir höfuðborgina Maníla í dag og verði í nágrenni hennar fram á kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×