Innlent

Ríkið stendur ekki við strætósamning

Skrifað var undir samning um efldar almenningssamgöngur árið 2012.
Skrifað var undir samning um efldar almenningssamgöngur árið 2012. visir/Pjetur
Um þrjú hundruð milljónir vantar upp á að ríkið standi við samning sem gerður var við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um almenningssamgöngur. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, telur þetta vera svik við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Fulltrúar Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skrifuðu í maí árið 2012 undir samkomulag um 10 ára tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Gengið var út frá því að ríkið legði 1.000 milljónir króna á ári í tíu ár í verkefnið, alls 10 milljarða króna. Á móti skuldbundu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sig til að veita aukið fé á móti í eflingu almenningssamgangna. Með breytingum á vísitölum er svo komið að um 300 milljónir vantar til að ríkið standi við sína hlið.

Ögmundur Jónasson var ráðherra samgöngumála þegar samningurinn var undirritaður. Hann bendir á að mikil og breið samstaða hafi náðst um málið.

„Það er ámælisvert ef menn hlaupa frá þessum samningi. Þessi samningur var hugsaður sem ígildi stórframkvæmdar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta átti að vera framlag ríkisins til að stórefla almenningssamgöngur á svæðinu og fjármagni yrði beint í þennan farveg. Almenn og breið pólitísk sátt myndaðist um þessa tilhögun og aldrei sáum við andmæli gegn þessari ráðstöfun. Það væru hrein brigði á þennan samning að hlaupa frá honum. Um þetta var rík samstaða allra sem komu að þessu.“

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir þá stöðu sem upp er komin ekki vera góða og ef fram heldur sem horfir gæti þetta farið að hafa áhrif á þá þjónustu sem Strætó veitir, jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar á landinu.

„Já, það er vissulega þannig að ríkið hefur ekki verið að koma með það fjármagn inn í samninginn sem það sagðist gera á sínum tíma. Á þessu ári og því næsta gætum við verið að tala um allt að þrjú hundruð milljónir sem vantar inn í samninginn. Þetta hefur ekki haft þau áhrif að við höfum þurft að minnka þjónustu. Hins vegar hefur þessi skerðing á samningnum valdið því að ekki er gerlegt að auka þá þjónustu sem við vildum gera með þessum samningi,“ segir Reynir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×