Fótbolti

Þjálfari Belgíu: Fáir veikleikar í íslenska liðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar frá Brüssel skrifar
Marc Wilmots, landsliðsþjálfari Belgíu, segir Moussa Dembélé, leikmanni liðsins, til á æfingu. Dembélé er fyrrverandi samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar.
Marc Wilmots, landsliðsþjálfari Belgíu, segir Moussa Dembélé, leikmanni liðsins, til á æfingu. Dembélé er fyrrverandi samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar. vísir/Getty
Óhætt er að fullyrða að lið Belgíu gegn Íslandi í kvöld sé skipað gríðarlega öflugum leikmönnum. „Það eru nokkrar breytingar á liðinu frá síðasta leik, gegn Bosníu, en það veikir liðið ekkert,“ sagði Lars Lagerbäck við Fréttablaðið í gær.

„En það gagnast okkur vel að spila gegn bestu þjóðum heims og það er besta leiðin til að þróa leik liðsins.“

Miðja belgíska liðsins er gríðarlega öflug með þá Moussa Dembélé og Marouane Fellaini í fararbroddi en þeim er ætlað það hlutverk að brjóta niður sóknarleik íslenska liðsins. Fyrir framan þá er Chelsea-maðurinn Eden Hazard og er með Alex Witsel og Adnan Januzaj með sér til að styðja við sóknarmanninn Christian Benteke.

„Ég vil að mínir menn haldi því skipulagi sem lagt er upp með,“ sagði Wilmots við Fréttablaðið á blaðamannafundi belgíska liðsins á Koning Boudewijn-leikvanginum í Brussel í gær.

„Ef við spilum sem lið gefur það tækifæri fyrir einstaklingana að blómstra.“

Belgía gerði 1-1 jafntefli gegn Bosníu í áðurnefndum leik en vann þar að auki sannfærandi 6-0 sigur á Andorra í riðlinum.

Það eru einu leikir þess í undankeppni EM 2016 til þessa þar sem viðureign Belgíu og Ísraels var frestað. Á sunnudag mæta Belgar liði Wales sem trónir á toppi B-riðils með sjö stig af níu mögulegum. Wilmots leggur því mikla áherslu á að liðið sé vel upplagt fyrir þann leik.

Fáir veikleikar hjá Íslandi

„Allt miðast við leikinn gegn Wales en ég á von á því að við fáum erfiðan leik gegn Íslandi á morgun [í kvöld]. Það eru ekki miklir veikleikar í íslenska liðinu, enda með marga góða og hættulega knattspyrnumenn.“

Moussa Dembélé tók í svipaðan streng á blaðamannafundinum. „Við viljum vinna, auðvitað. Það verður ekki auðvelt en við verðum á heimavelli og sjálfstraustið í liðinu er gott,“ sagði hann en í kvöld hittir hann fyrir Gylfa Þór Sigurðsson, sinn gamla félaga frá Tottenham.

„Ég þekki Gylfa og [Aron Einar] Gunnarsson persónulega og veit hversu góðir leikmenn þeir eru. Það eru margir góðir leikmenn í liðinu eins og úrslitin hafa sýnt,“ bætti hann við.

Prófraun fyrir helgina

Wilmots segist líta á þennan leik líkt og um mótsleik væri að ræða. „Þetta verður kjörið tækifæri fyrir alla leikmenn sem fá að spila til að sýna sig. Það er mikil samkeppni í hópnum og ég þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Leikurinn verður góð prófraun á liðið fyrir leikinn gegn Wales.“

Vincent Kompany spilar ekki með Belgum í kvöld vegna meiðsla en vonir eru bundnar við að hann verði með í leiknum á sunnudag. Meðal annarra leikmanna sem byrja á bekknum í kvöld má nefna Nacer Chadli, Kevin De Bruyne, Romelu Lukaku, Divock Origi og Radja Nainggolan en sá síðastnefndi leikur með Roma á Ítalíu og skoraði mark Belgíu gegn Bosníu.


Tengdar fréttir

Alfreð: Moyes örugglega góður kostur

Það hefur á ýmsu gengið hjá Real Sociedad, liði Alfreðs Finnbogasonar á Spáni. Jagoba Arrasate var rekinn úr stöðu knattspyrnustjóra á dögunum og var David Moyes, fyrrum stjóri Man. Utd, ráðinn í starfið í gærkvöldi. Það lá þó ekki fyrir er Fréttablaðið hitti á Alfreð í gær.

Kennslustund Bales nýttist landsliðinu okkar vel

Íslenska landsliðið hefur haldið hreinu í 422 mínútur eða í níu síðustu hálfleikjum sem liðið hefur spilað. Á sama tíma hefur íslenska liðið skorað tíu mörk í röð án þess að mótherjarnir hafi svarað.

Kári: Líklega heppinn að deyja ekki í þessum leik

Kári Árnason, leikmaður Rotherham í Englandi, reiknar ekki með öðru en að verða klár í slaginn þegar Ísland mætir Tékklandi í undankeppni EM 2016 á sunnudagskvöld. Hann verður þó ekki með er strákarnir mæta Belgíu í vináttulandsleik ytra annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×