Enski boltinn

Gylfi fór ekki á taugum árið 2010

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar jöfnunarmark sínu á Anfield í janúar 2010.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar jöfnunarmark sínu á Anfield í janúar 2010. Fréttablaðið/getty
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í Swansea sækja Liverpool heim í kvöld í sextán liða úrslitum enska deildarbikarsins en leikurinn hefst klukkan 20.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Gylfi hefur farið á kostum með liði Swansea á tímabilinu og skoraði eitt marka liðsins þegar það sló Everton út úr 32 liða úrslitum keppninnar. Nú er komið að hinu Bítlaborgarliðinu og það í leik á Anfield. Liverpool-liðið hefur verið í vandræðum með að skora í síðustu leikjum en Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, gerir eflaust mikið af breytingum á sínu liði í kvöld.

Gylfi haltraði reyndar af velli á móti Leicester um helgina en hafði áður átt þátt í báðum mörkum liðsins. Garry Monk, stjóri Swansea, mun tefla fram sterku liði í kvöld en svo getur farið að Gylfi verði hvíldur svo hann nái sér betur af nárameiðslunum.

Gylfi vill þó örugglega ekki missa af þessum leik enda efalaust ólmur í að upplifa annan sigur á Anfield líkt og þann með Reading fyrir tæpum fimm árum þegar b-deildarliðið sló Liverpool út úr enska bikarnum í janúar 2010.

Gylfi var þá ískaldur á úrslitastundu þegar hann jafnaði metin úr vítaspyrnu í uppbótartíma og Reading skoraði síðan tvö mörk í framlengingunni. Íslensku leikmennirnir Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson voru einnig í liðinu og Brynjar Björn lagði upp lokamark Reading með eftirminnilegum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×