Erlent

Pólitíkusar í ruslið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Margir þeirra hafa undanfarið orðið fyrir dálítið meiri óþægindum en að blotna.
Margir þeirra hafa undanfarið orðið fyrir dálítið meiri óþægindum en að blotna. fréttablaðið/AP
Í Úkraínu hefur undanfarið komist í tísku að setja stjórnmálamenn og embættismenn í ruslið. Og það bókstaflega, í sumum tilvikum að minnsta kosti.

Sjáist þeir úti á götu mega þeir eiga von á því að múgur manns sópist að þeim og kasti hvers kyns rusli í þá, eða grípi þá jafnvel og hendi þeim ofan í ruslagáma. Myndböndum af slíku er dreift á samfélagsmiðlunum og hljóta góðar viðtökur.

„Ruslatunnuhreinsanir“ er orðið, sem notað er um þetta, og er þá greinilega verið að vísa með harla óskammfeilnum hætti til hinna alræmdu „hreinsana“ Stalíns í Sovétríkjunum.

Almenningur virðist að minnsta kosti búinn að fá sig fullsaddan af ráðamönnum. Eftir að Viktori Janúkóvitsj forseta var steypt af stóli síðasta vetur hafa umbætur í stjórnkerfinu verið afar hægar og ekkert lát virðist vera á spillingunni.

„Fólk hefur ekki séð neinar raunverulegar breytingar. Fólk sér ekki neitt réttlæti,“ segir Maxim Latsyba, yfirmaður óháðrar rannsóknarstofnunar í stjórnmálafræði í Úkraínu. „Þegar samfélagsmiðlarnir eru skoðaðir þá má sjá alls kyns teikningar, ljósmyndir og brandara um þessi mál. Það sýnir að fólk er ánægt með þetta.“

Í lok næstu viku verða þingkosningar haldnar í Úkraínu, en stemningin í landinu virðist þess eðlis að þeir sem hæst hafa um fáránleika stjórnmálanna eiga mesta möguleika á kjöri.

Einhver átök hafa haldið áfram í austurhluta landsins, þrátt fyrir samþykkt um vopnahlé í apríl. Þar á stjórnarherinn í höggi við uppreisnarmenn, sem vilja tengjast Rússlandi nánari böndum.

Vopnahléið, þótt takmarkað sé, hefur engu að síður orðið til þess að draga athyglina að stjórninni í Kænugarði og sú athygli hefur ekki alltaf komið sér vel fyrir stjórnina.

„Neytendur eru farnir að velta fyrir sér örlögum gjaldmiðilsins og horfum á verðbólgustökki og öll veltum við því fyrir okkur hvað það verður sem tekið verður frá Úkraínubúum á komandi vetri,“ skrifar dálkahöfundurinn Jegor Strúsjkín í vikuritið Kommentarí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×