Erlent

Hart barist í Kobani

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Lögreglan í Istanbúl beitti táragasi og þrýstivatnsbyssum til að dreifa mannfjöldanum sem krafðist þess að tyrknesk stjórnvöld tækju þátt í aðgerðum gegn Íslamska ríkinu.
Lögreglan í Istanbúl beitti táragasi og þrýstivatnsbyssum til að dreifa mannfjöldanum sem krafðist þess að tyrknesk stjórnvöld tækju þátt í aðgerðum gegn Íslamska ríkinu. Fréttablaðið/AP
Loftárásir, sem Bandaríkjaher hefur haft forystu um, eru sagðar hafa hrakið vígasveitir Íslamska ríkisins að hluta frá landamærabænum Kobani í Sýrlandi.

Enn er þó hart barist í bænum og hafa flestir íbúar hans flúið, flestir yfir landamærin til Tyrklands.

Kúrdar saka tyrknesk stjórnvöld um að hafa setið hjá aðgerðalítil meðan vígasveitirnar herja á Kobani og nágrenni. Efnt hefur verið til mótmæla víða í Tyrklandi og hafa stjórnvöld þar tekið hart á mótmælendum. Að minnsta kosti tólf manns hafa látið þar lífið.

Vígasveitir Íslamska ríkisins hófu umsátur sitt um Kobani um miðjan september. Átökin hafa harðnað mjög á síðustu dögum og kostað nokkur hundruð manns lífið.

Liðsmenn Íslamska ríkisins héldu síðan í fyrsta sinn nú í vikunni inn í borgina og hafa götubardagar geisað þar. Að sögn arabísku fréttastofunnar Al Jazeera hefur kúrdískur blaðamaður lýst ástandinu í borginni svo að þar liggi lík vígamanna Íslamska ríkisins eins og hráviði á götunum.

Recep Tayyip Erdogan segir að loftárásir geti ekki dugað til að ráða niðurlögum Íslamska ríkisins í Kobani. Hann segir að Tyrkir muni hins vegar taka þátt í landhernaði verði tryggt að hlutlausu svæði verði komið upp milli Sýrlands og Tyrklands og flugbanni verði komið á yfir Sýrlandi. Bandaríkin þyrftu væntanlega að sjá um að framfylgja slíku.

Helsta borg kúrda í Sýrlandi

Kobani er landamærabær norðan til í Sýrlandi, rétt við landamæri Tyrklands. Þetta er helsta borg kúrda í Sýrlandi, en meirihluti íbúanna er flúinn undan ofbeldi vígamanna Íslamska ríkisins.

Kúrdar eru fjölmennir í Tyrklandi, Írak, Íran og Sýrlandi og hafa lengi viljað stofna eigið ríki, eða í það minnsta fá viðurkennd réttindi til sjálfstjórnar að einhverju marki.

Talið er að um fimm prósent kúrda búi í Sýrlandi, alls um tvær milljónir manna, og eru þeir þar með um níu prósent af íbúum Sýrlands.

Um 45 þúsund manns hafa búið í Kobani. Flestir þeirra eru kúrdar. Í nágrenni bæjarins búa einnig margir kúrdar og er talið að alls hafi um 200 þúsund manns á þessum slóðum flúið undan vígasveitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×